Þingið staðfestir friðarsamkomulagið

Frá fulltrúadeild kólumbíska þingsins sem samþykkti friðarsamning við FARC.
Frá fulltrúadeild kólumbíska þingsins sem samþykkti friðarsamning við FARC. AFP

Kólumbíska þingið hefur samþykkt friðarsamning sem stjórnvöld gerðu við skæruliðasamtökin FARC um að binda endi á fimm áratuga átök sem hafa kostað 260.000 manns lífið. Fyrri samningi var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu en nýi samningurinn krefst ekki samþykkis þjóðarinnar.

Neðri deild þingsins staðfesti samkomulagið í dag þrátt fyrir andmæli stjórnarandstöðunnar en áður hafði meirihluti öldungadeildarþingmanna ljáð því samþykki sitt, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Frétt Mbl.is: Friðarsamkomulag við FARC undirritað

Samkvæmt samkomulaginu yfirgefa þúsundir FARC-liða búðir sínar í skógum landsins og leggja niður vopn. Þá munu samtökin stofna stjórnmálaflokk í staðinn. Herinn ætlar að færa sig inn á þau svæði sem FARC hefur haldið til að koma í veg fyrir að fíkniefnagengi sölsi þau undir sig.

Andstæðingar samkomulagsins segja að með því sé of mikið látið eftir til skæruliðanna, þar á meðal mildi sem sé sýnd þeim sem hafi framið glæpi á meðan á átökunum stóð. Breytingar voru gerðar á samkomulaginu eftir að fyrstu útgáfu þess var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í október.

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, segir að tekið sé tillit til sjónarmiða gagnrýnenda í nýju útgáfu samkomulagsins. Álvaro Uribe, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og fyrrverandi forseti landsins, segir það engu að síður enn sýna skæruliðunum of mikla mildi. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert