Tveir ákærðir vegna sveðjuárásarinnar í Charleroi

Frá lögreglustöðinni í Charleroi. Tveir hafa nú verið ákærðir í …
Frá lögreglustöðinni í Charleroi. Tveir hafa nú verið ákærðir í tengslum við árás á tvær lögreglukonur fyrir utan stöðina í ágúst. AFP

Yfirvöld í Belgíu ákærðu í dag karl og konu í tengslum við sveðjuárás á tvær lögreglukonur í hverfinu Charleroi í Brussel í ágúst.  Maðurinn sem réðist gegn þeim var skotinn á staðnum af lögreglu og lýstu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams yfir ábyrgð á verknaðinum.

Skrifstofa saksóknara sagði að dómarinn sem fer með rannsókn málsins hefði ákært þau Sabrinu Z., sem er 36 ára, og Farid L., sem er 37 ára, eftir að þau voru handtekin í húsleit belgísku lögreglunnar í átta íbúðum í Charleroi í gær.

 „Þau voru bæði ákærð fyrir þátttöku í aðgerðum hryðjuverkasamtaka og fyrir morðtilraun á grunni hryðjuverks,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu saksóknara.

Fjórir til viðbótar voru handteknir í húsleitunum og hafa þrír þeirra nú verið látnir lausir, en einn sætir enn yfirheyrslum. Lögregla lagði þá hald á nokkur eggvopn í aðgerðum sínum og segir AFP-fréttastofan nokkrum þeirra svipa til sveðjunnar sem var notuð í árásinni á lögreglukonurnar.

Árás­armaður­inn var 33 ára Alsírbúi og hafði búið í Belg­íu frá ár­inu 2012. Hann hefur aðeins verið nefnd­ur KB af sak­sókn­ara, var ekki á sakaskrá og hafði ekki vakið athygli lögreglu vegna tengsla við hryðjuverkasamtök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert