Frambjóðandi hægriöfgaflokks tapaði

Alexander Van der Bellen er nýkjörinn forseti Austurríkis en hann er fyrrverandi leiðtogi Græna flokksins. Van der Bellen bar sigurorð af mótframbjóðanda sínum Norbert Hofer, forsetaefni Frelsisflokksins, sem telst hægriöfgaflokkur. Hofer hefur meðal annars lagt áherslu á andstöðu við fjölgun innflytjenda. Samkvæmt skoðanakönnunum var tvísýnt um úrslit kosninganna. 

Úrslitin eru fagnaðarefni fyrir ríkjandi stjórnmálaöfl í landinu og einnig Evrópusambandið. Fyrir kosningar sagðist Hofer ætla að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr Evrópusambandinu ef brotthvarf Bretlands úr sambandinu myndi leiða til aukinnar miðstýringar frá Brussel.

Alexander Van der Bellen.
Alexander Van der Bellen. AFP

Frelsisflokkurinn hefur lýst sér sem verndara austurrískra gilda og velferðarkerfisins og segir að ekki verði hægt að viðhalda því nema stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum verði breytt.

Frelsisflokkurinn er meðal þjóðernisflokka sem hafa sótt í sig veðrið í nokkrum ESB-löndum. Á næsta ári verða kosningar í Frakklandi, Hollandi og í Þýskalandi. Í þeim löndum hafa þjóðernisflokkar sem leggjast gegn fjölgun flóttafólks vaxið ört undanfarið.    

Þessar forsetakosningar eru þær seinni í Austurríki en í maí kærði Frelsisflokkurinn kosningarnar og því fóru þær fram aftur í dag, 4. desember. Æðsti dómstóll Austurríkis féllst á kröfu Frelsisflokksins um að ógilda forsetakosningar sem fóru fram í maí vegna brota á reglum um framkvæmd utankjörstaðaratkvæðagreiðslu. Í kosningunum í maí sigraði einnig Van der Bellen Hofer með rúmlega 30.800 atkvæða mun.

Norbert Hofer ásamt Alexander Van der Bellen.
Norbert Hofer ásamt Alexander Van der Bellen. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina