Krefjast lífstíðardóms yfir Mladic

Bosníu-Serbinn Ratko Mladic.
Bosníu-Serbinn Ratko Mladic. AFP

Saksóknarar við stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna hafa farið fram á lífstíðardóm yfir Ratko Mladic, fyrrverandi hershöfðingja Bosníu-Serba.

Mladic, sem hefur verið kallaður „slátrarinn frá Bosníu“, kveðst saklaus af ellefu ákærum, þar á meðal tveimur fyrir þjóðarmorð, auk ákæra fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu vegna aðildar sinnar að Bosníustríðinu á árunum 1992 til 1995.

Meira en 100 þúsund manns létust og 2,2 milljónir til viðbótar misstu heimili sín. Saksóknararnir segja að þjóðernishreinsanir hafi farið fram. Beindust þær að öllum þeim sem voru ekki Serbar en bjuggu á landssvæði Bosníu. Markmið hafi verið að skapa eina, stóra Serbíu.

Stríðsglæpadómstólinn hefur hingað til aðeins einu sinni samþykkt að þjóðarmorð hafi farið fram en það var þegar um 8 þúsund bosnískir múslímar voru myrtir í Srebrenica árið 1995.

Sex manns, þar á meðal Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtogi Bosníu-Serba, hafa verið dæmdir sekir fyrir þjóðarmorð í Srebrenica.

mbl.is