Kynferðisbrot verða ekki liðin

Forseti FIFA, Gianni Infantino, segir sambandið ekki líða kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hann lét þessi ummæli falla í morgun en undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri og fleiri mál tengd barnaníði innan ensku knattspyrnunnar komið upp á yfirborðið.

Infantino segir að hver sá sem verður fundinn sekur um að hafa framið slíkan glæp verði settur í bann frá íþróttinni. Hann segir fátt í heiminum jafnalvarlegt og barnaníð og slíkt ofbeldi verði að taka alvarlega. Infantino ræddi við fréttamenn eftir að þriggja daga ráðstefnu FIFA lauk í Singapúr í morgun.

Spurður hvort hann óttist að slíkum málum eigi eftir að fjölga og það út fyrir ensku knattspyrnuna segir hann að þetta verði að rannsaka gaumgæfilega. Möguleg brot verði að rannsaka af fullri alvöru.

Um 20 fyrrverandi leikmenn í Bretlandi hafa tjáð sig um kynferðislegt ofbeldi af hálfu þjálfara og nöfn 55 knattspyrnufélaga nefnd í þessu sambandi. 18 bresk lögregluumdæmi eru að rannsaka ásakanirnar en flest brotin voru framin á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Nýverið var fyrrverandi þjálfari yngri flokka hjá Crewe Alexandra, Barry Bennell, kærður fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart leikmönnum. Hann hefur hlotið dóma fyrir barnaníð. 

Knattspyrnufélagið Chelsea hefur sent fyrrverandi leikmanni liðsins, Gary Johnson, afsökunarbeiðni vegna kynferðisofbeldis sem hann varð fyrir á áttunda áratugnum og QPR hefur lýst því yfir að ásakanir á hendur fyrrverandi starfsmanni félagsins, Chris Gieler, séu litnar mjög alvarlegum augum.

Fyrrverandi hetja Englendinga á knattspyrnuvellinum, Matthew Le Tissier, greindi frá því fyrr í vikunni að hann hafi orðið fyrir misnotkun á sínum yngri árum. Hann hafi til að mynda fengið verulega ógeðsleg skilaboð með nektarmynd af þjálfara sínum í yngri flokkunum hjá Southampton, Bob Higgins. Hann segir að sér hafi liðið mjög illa nálægt Higgins og þegar hann líti til baka sjái hann hve margt sé rangt við hegðun þjálfarans gagnvart ungum drengjum.

Fjölmargir knattspyrnumenn hafa greint frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu þjálfara …
Fjölmargir knattspyrnumenn hafa greint frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu þjálfara í ensku deildinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert