Pyntingar og aftökur bíða þeirra

Abir Moussa er sjálfboðaliði innan Hvítu hjálmanna.
Abir Moussa er sjálfboðaliði innan Hvítu hjálmanna. AFP

Félagar í björgunarsveitinni Hvítu hjálmarnir óttast mjög um líf sitt og fjölskyldna sinna þegar stjórnarherinn nær völdum í allri Aleppo-borg í Sýrlandi. Hvítu hjálmarnir hafa undanfarin ár unnið við hjálparstarf í hverfum sem eru undir yfirráðum stjórnarandstæðinga en ljóst er að stutt er í að stjórnarherinn nái allri borginni á sitt vald.

AFP

„Ef við erum ekki fluttir á brott eiga sjálfboðaliðar okkar von á pyntingum og aftökum í fangelsum stjórnvalda,“ segir í tilkynningu sem Syria Campaign, sem annast málsvörn Hvítu hjálmanna, sendi frá sér í gær.

Hvítu hjálmarnir voru fyrr á árinu tilnefndir til friðarverðlauna Nóbels fyrir störf sín í þágu almennings. Tilkynningin frá þeim var send út síðdegis í gær, fimmtudag, en þá töldu þeir að stjórnarherinn yrði kominn inn í þá hluta Aleppo sem enn eru undir yfirráðum uppreisnarmanna eftir innan við tvo sólarhringa. 

AFP

Ákalli Hvítu hjálmanna er beint að alþjóðadeild Rauða krossins (ICRC), Sameinuðu þjóðunum og öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Biðja þeir um að starfsfólk þeirra, fjölskyldur og aðrir starfsmenn mannúðarsamtaka fái aðstoð við að komast strax í burtu úr borginni. 

Á undanförnum þremur vikum hefur stjórnarherinn náð um 85% af þeim hverfum sem voru undir stjórn uppreisnarmanna á sitt vald í Austur-Aleppo.

„Við höfum góða ástæðu til að óttast um líf okkar,“ segja félagar í Hvítu hjálmunum. Þeir segja að stjórnvöld í Damaskus hafi ítrekað orðið uppvís að lygum varðandi starf þeirra. Stjórnvöld haldi því fram að Hvítu hjálmarnir starfi með öfgasamtökum og hryðjuverkasamtökum á meðan þeirra starf felist í því að veita almennum borgurum aðstoð og að björgunarfólk Hvítu hjálmanna sé óvopnað.

AFP

Hvítu hjálmarnir óttast að félaga í sveitum þeirra bíði sömu örlög og þeirra sem stjórnvöld skilgreina sem hryðjuverkamenn – þeim verði hent í fangelsi þar sem þeir verði pyntaðir og eða teknir af lífi af hersveitum forseta Sýrlands.

Þeir segjast setja líf sitt í hendur ICRC, SÞ og öryggisráðsins sem þeir segja að beri ábyrgð á lífi þeirra. Hvítu hjálmarnir hafa áunnið sér mikinn stuðning meðal alþjóðasamfélagsins fyrir störf sín í þágu almennra borgara í stríðshrjáðu landi. Talið var líklegt að þeir fengju friðarverðlaun Nóbels í ár en þess í stað voru það stjórnvöld í Kólumbíu sem þau hlutu. Hins vegar fengu Hvítu hjálmarnir önnur sænsk mannréttindaverðlaun sem oft eru nefnd „hin Nóbelsverðlaunin“.

En samtökin eru ekki hafin yfir gagnrýni og flestir stuðningsmenn Sýrlandsforseta, Bashar al-Assad, saka þá um að vera handbendi alþjóðlegra samtaka sem styðja við bakið á stjórnarandstöðunni. Þessu hafna Hvítu hjálmarnir og segja að þeirra markmið sé að bjarga mannslífum. 

Upplýsingar um Hvítu hjálmana

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert