Guterres segir SÞ þurfa að breytast

Sameinuðu þjóðirnar þurfa að taka breytingum til að þær geti betur tekist á við krísur eins og stríðið í Sýrlandi. Þetta sagði Antonio Guterres þegar hann sór embættiseið sem nýr aðalritari sambandsins í New York í dag. Guterres er fyrsti fyrrum þjóðarleiðtoginn sem gegnir embættinu.

Guterres tekur formlega við af Ban Ki-moon 1. janúar og verður þá níundi aðalritari Sameinuðu þjóðanna frá upphafi. Kjörtímabil hans er fimm ár.

„Þessi samtök eru hornsteinn alþjóðasamstarfs og hafa lagt sitt af mörkum til áratuga tiltölulegs friðar en áskoranirnar eru nú að fara fram úr getu okkar til að bregðast við. Sameinuðu þjóðirnar þurfa að vera tilbúnar að breytast,“ sagði Guterres eftir að hafa svarið eið að stofnskrá samtakanna.

Sérstaklega nefndi hann þrjú forgangsmál þar sem hann vildi sjá breytingar næstu fimm árin; í friðarumleitunum, stuðningi við sjálfbæra þróun og innri stjórn Sameinuðu þjóðanna. Mikilvægt væri að jafna hlut kynjanna á vettvangi samtakanna.

Guterres hét því að taka persónulega þátt í að leysa úr átökum. Sagði hann alla tapa á stríðinu í Sýrlandi. Tími sé kominn til að binda enda á „þessa vitleysu“. Þá ræddi nýi aðalritarinn um óvissuástand í heimsmálunum eftir kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna.

„Ótti stjórnar ákvörðun margs fólks um allan heim,“ sagði Guterres. Borgarar um allan heim hefðu misst trúna á stjórnvöldum og alþjóðlegum stofnunum. Tími væri kominn til að byggja aftur upp samband fólksins og leiðtoga þess.

Antonio Guterres sver embættiseið í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres sver embættiseið í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert