Prince átti í viðræðum við Netflix

Prince fannst látinn á heimili sínu í apríl. Dánarorsökin var …
Prince fannst látinn á heimili sínu í apríl. Dánarorsökin var ofneysla verkjalyfja. AFP

Forsvarsmenn Netflix hafa uppljóstrað því að veitan hafi átt í viðræðum við tónlistarmanninn Prince um gerð raunveruleikaþáttar þegar poppgoðið lést í apríl. Hugmyndin var sú að taka þættina upp í Paisley Park, heimili stjörnunnar í Minnesota.

Paisley Park var goðsagnakenndur staður í hugum aðdáenda Prince, sem stöku sinnum efndi til veisluhalda og hleypti fólki inn.

Það var ljósmyndarinn Maya Washington sem sagði fyrst frá raunveruleikaþáttahugmyndinni í tímaritinu GQ, en að hennar sögn voru tilfinningar Prince blendnar.

„Ég sagði: Af hverju ekki? Þú ert svo fyndinn, af hverju viltu ekki deila skopskyni þínu með fólki? Og hann lokaði á mig: Maya, ég get ekki verið fyndinn. Ég verð að bjarga heiminum.“

Talsmaður Netflix staðfesti sannleiksgildi frásagnar Washington í dag.

Prince reisti Paisley Park í Chanhassen, úthverfi Minneapolis, í kjölfar velgengni Purple Rain, sem kom út árið 1984. Í byggingunni er m.a. að finna upptökuver af bestu gerð.

Meðal þeirra listamanna sem hafa tekið upp efni í Paisley Park má nefna Madonnu, Stevie Wonder og R.E.M.

Paisley Park hefur nú verið opnað almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert