Sveltur og synjað um klósettferð

Í heimildarmyndinni mátti sjá Dylan Voller fjötraðan við stól.
Í heimildarmyndinni mátti sjá Dylan Voller fjötraðan við stól.

Ungur maður sem var í haldi í unglingafangelsi í Ástralíu segir að honum hafi verið neitað um mat, ítrekað hafi verið leitað á honum allsnöktum og neyddur til þess að hafa hægðir í koddaver. Þetta kom fram í máli Dylan Voller, sem nú er 19 ára, þegar hann bar vitni fyrir rannsóknarnefnd um aðbúnað í áströlskum unglingafangelsum.

Í heim­ild­ar­mynd, sem m.a. byggðist á upp­tök­um úr eft­ir­lits­mynda­vél­um frá mörg­um ung­linga­heim­il­um í Ástr­al­íu, mátti sjá Dyl­an Voller með hvíta hettu á höfði og með hlekki um háls­inn. Hann var einnig bund­inn á hönd­um við stól. Hann var sautján ára er mynd­bandið var tekið upp árið 2015.

Eftir að myndin var sýnd í sjónvarpi setti ríkisstjórn Ástralíu nefnd á laggirnar til þess að rannsaka aðbúnað í unglingafangelsum í Norður-Ástralíu (Northern Territory).

Voller segir að fangaverðir hafi beitt fangana ítrekað harðræði. „Ég hafði beðið um að fara á klósettið í fjóra eða fimm klukkutíma og þeir sögðu alltaf nei,“ sagði hann við vitnaleiðslurnar í morgun. „Ég endaði með því að þurfa að kúka í koddaver því þeir vildu ekki leyfa mér að fara á klósettið.“

Nefndin, Royal Commission into the Protection and Detention of Children in the Northern Territory, hóf störf í sumar eftir umfjöllun um meðferð fanga í Don Dale unglingafangelsinu 2014 og 2015.

Amnesty International gagnrýndi aðbúnaðinn harðlega í fyrra og lýsti honum sem kerfisbundnum pyntingum þar sem unglingum var haldið í einangrun í myrkri og án vatns langtímum saman.

Voller talaði meðal annars um þegar hann var bundinn í hjólastól í tæpar tvær klukkustundir með hettu yfir höfðinu - sértaka hettu sem er ætlað að koma í veg fyrir að sá sem klæðist henni spýti eða bíti. „Mig var farið að svima af ótta,“ segir Voller og bætir við að vörðurinn hafi áreitt hann og hrætt og tekið upp á myndband. Voller ældi og pissaði á sig á meðan pyntingunum stóð. 

Að sögn Voller var hann algjörlega kominn upp á náð og miskunn varðanna og þeir hafi getað gert hvað sem er við hann - án þess að hann gæti borðið hönd yfir höfuð sér. Í annað skiptið var sprautað á hann táragasi og segir Voller að þá hafi hann haldið að sín síðasta stund væri runnin upp. 

Fangaverðirnir við Don Dale rukkuðu fangana um leigu, 1,5 Ástralíudal á dag, peninga sem þeir unnu sér inn með  góðri hegðun. Stundum var þeim neitað um mat og einu sinni hafi hann orðið fyrir því að aðrir fangar hafi fengið vatn að drekka en ekki hann. Því fangavörðurinn þoldi mig ekki sagði Voller við nefndina í morgun. Fangavörðurinn hafi spurt hvort hann vildi vatn og þegar Voller svaraði játandi hellti fangavörðurinn vatninu niður og sagði við hann: Verði þér að góðu og gekk í burtu.

Voller er nú fangi í fangelsi fyrir fullorðna í Darwin en fleiri ungmenni sem hafa dvalið í Don Dale unglingafangelsinu munu bera vitni næstu daga.

Umfjöllun BBC í heild

Frétt mbl.is: Eins og dýr í búri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert