Kanye heimsótti Trump í New York

Kanye West heimsótti Donald Trum í Trump Tower í New …
Kanye West heimsótti Donald Trum í Trump Tower í New York. AFP

Margir ráku upp stór augu þegar tónlistarmaðurinn Kanye West birtist ásamt fylgdarliði í Trump Tower í New York. Gekk West rakleiðis í lyftuna sem fer upp í íbúð Donald Trump, tilvonandi forseta Bandaríkjanna, en skömmu síðar voru þeir félagar samferða niður og stilltu sér upp fyrir ljósmyndara.

Tónlistarmaðurinn er nýútskrifaður af heilbrigðisstofnun þar sem hann er sagður hafa verið lagður inn vegna andlegra veikinda. Hann er þekktur fyrir að segja hvaðeina sem honum dettur í hug en var fámáll eftir fundinn með Trump.

Þegar tvíeykið var innt eftir því hvað þeim fór á milli svaraði Trump: „Lífið.“

„Bara vinir, bara vinir,“ sagði Trump enn fremur. „Hann er góður maður. Langur tími. Vinir í langan tíma,“ bætti forsetinn tilvonandi við, en það virtist liggja öllu betur á honum en gesti hans.

Mörgum brá í brún þegar West gekk inn í Trump …
Mörgum brá í brún þegar West gekk inn í Trump Tower og rakleiðis inn í lyftuna sem fer upp í íbúð Trump. AFP

Blaðamenn reyndu ítrekað að spyrja West spurninga, m.a. hvort hann hygðist enn bjóða sig fram til forseta árið 2020. Hann svaraði engu og sagðist aðeins á staðnum fyrir myndatökur.

Eiginkona West, raunveruleikastjarnan Kim Kardashian, var ekki í fylgdarliði tónlistarmannsins en hún hefur haldið sig til hlés frá því að byssumenn réðust inn á hótelherbergi hennar í París, bundu hana og höfðu skartgripi á brott með sér.

West kom tónleikagestum í Kaliforníu heldur betur á óvart í nóvember sl. þegar hann hélt langa ræðu um að hann hefði ekki kosið, en að hefði hann gert það hefði hann stutt Trump, vegna þess hversu opinskár fasteignajöfurinn er.

Kim Kardashian var ekki með í för en sögusagnir ganga …
Kim Kardashian var ekki með í för en sögusagnir ganga nú um ástand hjónabandsins. AFP

Tónlistarmaðurinn var sem fyrr segir lagður inn skömmu síðar, í kjölfar furðulegra ummæla sem hann lét falla á tónleikum. Sakaði hann m.a. samstarfsmann sinn Jay Z um að vilja sig feigan og fordæmdi Facebook-stofnandann Mark Zuckerberg fyrir að hafa ekki losað sig úr 53 milljón dala skuldafeni.

Ein möguleg skýring á heimsókn West í Trump Tower er sú að Trump hafi farið þess á leit að tónlistarmaðurinn komi fram þegar hann sver embættiseið. Trump er síður en svo vinsæll meðal skemmtikrafta og á e.t.v. erfitt með að manna dagskrána. Hann er sagður munu eiga fund með ítalska tenórnum Andrea Bocelli, til að biðla til hans um að syngja við athöfnina.

West lét sig hafa það að láta glitta í tennurnar …
West lét sig hafa það að láta glitta í tennurnar áður en myndatökum lauk. AFP
mbl.is