Hæsta viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu

AFP

Stjórnvöld í Suður-Kóreu lýstu yfir hæsta viðbúnaðarstigi í dag vegna fuglaflensu. Þetta er í fyrsta skipti sem svo hátt viðbúnaðarstig er sett á í landinu vegna flensunnar. Með því fá yfirvöld auknar heimildir til þess að skera upp herör gegn flensufaraldrinum. Nú þegar er búið að slátra um 10% af öllum alifuglum landsins.

Frá því að H5N6-vírusinn greindist í Suður-Kóreu um miðjan nóvember hefur fuglaflensan farið hratt yfir landið. Alls hefur verið slátrað 16 milljónum kjúklinga og anda.

Landbúnaðarráðherra Suður-Kóreu, Kim Jae-Soo, segir að þetta sé gert til þess að koma í veg fyrir að fuglaflensan fari víðar. Þetta getur þýtt gríðarlegar verðhækkanir á alifugla- og eggjaverði í S-Kóreu. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert