Margfalt ríkari en ríkisstjórn Bush

Rex Tillerson, forstjóri ExxonMobile, er einn þeirra milljarðamæringa sem Trump …
Rex Tillerson, forstjóri ExxonMobile, er einn þeirra milljarðamæringa sem Trump hefur skipað í ríkisstjórn sína. AFP

Fjölmiðlar kölluðu fyrstu ríkisstjórn George W. Bush „milljónamæringaliðið“. Fólkið sem Donald Trump hefur skipað í sína ríkisstjórn er hins vegar fimmtíu sinnum auðugra en það sem Bush hafði með sér. Trump líkir hópnum við frábæra kylfinga sem nú beiti hæfileikum sínum fyrir þjóðina.

Sagt hefur verið frá því að þeir sem Trump hefur skipað sem ráðherra og yfirmenn stofnana eigi samtals yfir fjórtán milljarða dollara. Staðfesti þingið tilnefningarnar verður þetta auðugasta ríkisstjórn allra tíma í Bandaríkjunum.

Frétt Mbl.is: Ríkisstjórn Trump auðugri en þriðjungur þjóðarinnar

Sumir segja að tilnefningar Trump á forstjóra stærsta olíufyrirtækis heims og þremur Goldman Sachs-stjórnendum rími illa við loforð hans um að „ræsa fram mýrina“ í Washington-borg sem hann hefur sagt fulla af sérhagsmunum og spillingu. Sjálfur lítur Trump ekki þannig á málið.

„Dagblað gagnrýndi mig og sagði: „Af hverju geta þeir ekki haft hóflega vel stætt fólk?“ Vegna þess að ég vil fólk sem græddi á tá og fingri. Vegna þess að nú er það að semja fyrir ykkur, allt í lagi? Þetta er ekkert öðruvísi en frábær hafnaboltaleikmaður eða magnaður kylfingur,“ sagði Trump við stuðningsmenn sína í Iowa fyrr í þessum mánuði.

Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont sem tapaði fyrir Hillary Clinton í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar, hefur kallað tilnefningar Trump „ráðuneyti milljarðamæringa“.

„Ég býst við að þau séu með nokkra fátæka milljónamæringa líka en aðallega eru þetta milljarðamæringar,“ segir Sanders sem sakar Trump um að ganga á bak orða sinna um byltingu gegn ráðandi öflum.

„Ef ráðuneytið sem hann skipaði milljóna- og milljarðamæringum er andstæðan við ráðandi öfl þá legði ég ekki í að sjá hvernig ráðandi öfl líta í raun út,“ sagði þingmaðurinn.

Umfjöllun The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina