Staðfestu Trump í embætti forseta

Mótmælendur söfnuðust saman í ráðhúsi Michigan áður en kjörmenn ríkisins …
Mótmælendur söfnuðust saman í ráðhúsi Michigan áður en kjörmenn ríkisins komu þar saman til að útnefna næsta forseta Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska kjörmannaráðið staðfesti í dag að Donald Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna, þegar 538 kjörmenn komu saman í höfuðborgum allra 50 ríkja Bandaríkjanna til að útnefna arftaka Barack Obama í embætti forseta Bandaríkjanna. Segir Reuters-fréttastofan kjörmenn Repúblikanaflokksins ekki hafa neitað Trump um atkvæði sín, en hins vegar hafi fimm kjörmenn demókrata neitað Hillary Clinton um sitt atkvæði.

Getgátur höfðu verið uppi um að einhverjir kjörmenn Repúblikanaflokksins myndu ekki greiða Trump atkvæði sitt. Millj­ón­ir Banda­ríkja­manna sem telja Don­ald Trump óhæf­an til að gegna embætt­inu höfðu ljáð und­ir­skrifta­söfn­un nafn sitt, þar sem kallað var eft­ir því að kjör­menn re­públi­kana neituðu hon­um um fullnaðarsig­ur.

Alls hefðu 37 þeirra þurft að greiða öðrum at­kvæði svo Trump yrði ekki kos­inn, en forsetafram­bjóðandi verður að hljóta hrein­an meiri­hluta at­kvæðanna, eða að minnsta kosti 270 at­kvæði af 538, til að fá embættið í sinn hlut.

Niðurstöður funda kjörmannaráðsins reyndust hins vegar Trump í vil, en fimm kjörmenn Demókrataflokksins kusu hins vegar þegar á hólminn var komið einhvern annan en Hillary Clinton, frambjóðanda flokksins.

Segir Reuters þetta vera fjölmennasta hóp „trúlausra kjörmanna“ í rúma öld.

Fjórir kjörmannanna voru úr Washington-ríki og einn frá Maine, en ákvörðun þeirra þykir ítreka þá miklu gjá sem hefur myndast í Demókrataflokknum. Enginn kjörmanna repúblikana hafði hins vegar greitt öðrum frambjóðanda en Trump atkvæði sitt, þó að einn kjörmannanna frá Texas hefði áður tilkynnt að hann hygðist gera það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert