Skothvellir við sendiráð Bandaríkjanna

Andrei Karlov, sendiherra Rússlands, var skotinn til bana í gær.
Andrei Karlov, sendiherra Rússlands, var skotinn til bana í gær. AFP

Skothvellir heyrast fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Ankara í Tyrklandi, samkvæmt fyrstu fréttum af gangi mála. Sendiráðinu hefur verið lokað og starfsfólki þess komið í öruggt skjól.

Samkvæmt upplýsingum frá sendiráðinu verða allar sendiskrifstofur Bandaríkjanna í Tyrklandi lokaðar í dag vegna atviksins. Um var að ræða mann sem kom að aðalinngangi sendiráðsins og hóf skothríð. Hann var handtekinn og enginn slasaðist. Sem varúðarráðstöfun var ákveðið að loka skrifstofum bandarískra yfirvalda í Istanbul og Adana auk sendiráðsins í Ankara.

Í gær var sendiherra Rússlands í Tyrklandi, Andrei Karlov, skotinn til bana á listasafni í borginni. Nokkrir nærstaddir særðust einnig í árásinni en hún var gerð degi eftir mótmælin í Tyrklandi gegn afskiptum Rússlands í Sýrlandi.

Haft er eftir tyrkneskum miðlum að Karlov hafi verið á sýningunni „Rússar séðir með augum Tyrkja“ og verið þar að halda ræðu þegar hann var skotinn í bakið af tyrkneskum lögreglumanni. Maðurinn, sem var á frívakt, hrópaði vígorð gegn Rússum og á myndbandi heyrist „Ekki gleyma Aleppo, ekki gleyma Sýrlandi“ og endar á íslömsku setningunni „Allahu Akbar“ eða „guð er góður“.

Að sögn talsmanns rússneska utanríkisráðuneytisins verða hryðjuverk ekki liðin og þá hefur Vladimir Pútín, forseti Rússlands, fordæmt árásina.

Bandaríska sendiráðið er beint á móti listasafninu þar sem Karlov var skotinn til bana. Bandarísk yfirvöld hafa ítrekað varað þegna sína við ferðalögum til Tyrklands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert