Árásarmannsins enn leitað

Mikill viðbúnaður er hjá þýsku lögreglunni sem leitar manns sem talinn er hafa ekið viljandi inn í mannmergð á jólamarkaði í Berlín í fyrrakvöld. Ekki er útilokað að fleiri en einn hafi komið að árásinni. Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð á hryðjuverkinu í gær en ekkert er vitað hver var að verki. Talið er að árásarmaðurinn sé vopnaður.

Tólf létust og 24 eru slasaðir á sjúkrahúsi, þar af 14 mjög alvarlega, eftir að flutningabifreið var ekið á miklum hraða inn á jólamarkað á annatíma. 23 ára gamall hælisleitandi frá Pakistan var handtekinn skömmu síðar grunaður um verknaðinn en það reyndist ekki á rökum reist.

Í frétt sem birt var hjá Amaq-fréttastofunni, sem tengist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, kemur fram að hermaður Ríkis íslams standi á bak við blóðbaðið í Berlín en það sé liður í áætlun samtakanna að herja á almenna borgara í þeim ríkjum sem mynda bandalag gegn Ríki íslams. Þýskaland er hluti af hernaðarbandalagi undir forystu Bandaríkjamanna sem berst við liðsmenn Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert