Leitin nær til allrar Evrópu

Anis Amri, 24 ára Túnisa, er leitað um alla Evrópu en hann er grunaður um aðild að hryðjuverkaárás í Berlín á mánudagskvöldið. Tólf létust og 49 eru særðir á sjúkrahúsi, þar af 14 mjög alvarlega. Fylgst hafði verið með Amri frá því fyrr á árinu en hann sat fjögur ár í fangelsi á Ítalíu fyrir íkveikju áður en hann kom til Þýskalands og sótti þar um hæli. 

Handtökuskipun var gefin út á hendur Amri eftir að skjöl tengd hælisumsókn hans í Þýskalandi fundust í stýrishúsi flutningabílsins sem var ekið inn í mannþröng á jólamarkaði í miðborg Berlínar um áttaleytið á mánudagskvöldið.

Vakt við Kaiser-Wilhelm-Gedaechtniskirche í Berlín.
Vakt við Kaiser-Wilhelm-Gedaechtniskirche í Berlín. AFP

Þýsk yfirvöld vara við því að Amri geti verið vopnaður og hættulegur og bjóða 100 þúsund evrur hverjum þeim sem geti veitt upplýsingar sem leiði til handtöku hans.

Fregnir herma að hann hafi jafnvel meiðst í átökum við pólska bílstjórann sem fannst myrtur í flutningabílnum. 

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hefur átt fund með öryggisráði Þýskalands til þess að ræða rannsókn á árásinni. Ríkisstjórnin hefur samþykkt áætlun um að heimila frekara öryggiseftirlit með myndavélum á opinberum stöðum. 

Þýsk yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd af almenningi eftir að ljóst varð að Amir hafi verið álitinn hættulegur og mögulega hryðjuverkamaður um tíma en samt látinn ganga laus í landinu. Amri er talinn tengjast öfgasinnuðum íslömskum samtökum. 

Lögregla leitaði í flóttamannamiðstöð í Emmerich í Vestur-Þýskalandi en Amri dvaldi þar fyrir nokkrum mánuðum. Eins var gerð húsleit í tveimur íbúðum í Berlín. 

Á sama tíma og leitin stendur sem hæst hafa kviknað spurningar um hvernig Amri hafi tekist að komast hjá handtöku eða brottvísun þrátt fyrir að hafa verið undir eftirliti nokkurra leyniþjónusta.

Yfirvöld voru með hann í miði og samt tókst honum að hverfa, segir á vef Der Spiegel. Suddeutsche Zeitung gagnrýnir lögreglu fyrir að eyða tíma í að einbeita sér að Pakistananum sem var handtekinn strax eftir árásina en það reyndist ekki vera grundvöllur fyrir ásökunum í hans garð. Ríki íslams hefur lýst ábyrgð á hendur sér á árásinni en hún er sú mannskæðasta í Þýskalandi um langt árabil.

Ralf Jäger, innanríkisráðherra Nordrhein-Westfalen, segir að deildir lögreglunnar sem fylgjast með hryðjuverkamönnum hafi skipst á upplýsingum um Amri, síðast í nóvember, og rannsókn hafi verið sett af stað þá vegna gruns um að hann væri að undirbúa ofbeldisverk gagnvart ríkinu. Saksóknari í Berlín sagði í gær að Amri hafi verið grunaður um að undirbúa rán til þess að safna fé til þess að kaupa vopn, jafnvel til þess að nota í árás. 

En eftir að hafa fylgst með honum frá mars til september tókst ekki að finna neinar sönnur fyrir því að hann væri að undirbúa árás. Heldur kom í ljós að hann var smáglæpamaður sem hafði eiturlyfjasölu að viðurværi. Því var eftirlitinu hætt. 

Fjölskyldu Amri í Túnis var mjög brugðið við fréttirnar og segist bróðir hans, Abdelkader Amri, ekki trúa því að hann hafi gert árásina. En ef hann hafi gert það þá eigi að refsa honum harðlega. Fjölskyldan hafni hryðjuverkum og hryðjuverkamönnum og hafi ekkert að gera með þá.

Amri fór frá Túnis eftir uppreisnina þar í landi 2011 og bjó á Ítalíu. Yfirvöld þar segja að hann hafi setið í fangelsi fyrir að hafa kveikt í skóla. Hann kom til Þýskalands í júlí 2015 en í júní var umsókn hans um hæli hafnað. Hins vegar tókst ekki að vísa honum úr landi til síns heima þar sem stjórnvöld í Túnis neituðu því að hann væri ríkisborgari þar.

Anis Amri.
Anis Amri. AFP
AFP
Ich bin ein Berliner.
Ich bin ein Berliner. AFP
Leikmenn í þýsku knattspyrnunni léku með sorgarbönd í gær.
Leikmenn í þýsku knattspyrnunni léku með sorgarbönd í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert