Merkel sögð hafa blóðugar hendur

Merkel verður að víkja, segir á einu skiltanna sem mótmælendur …
Merkel verður að víkja, segir á einu skiltanna sem mótmælendur ríkisstjórnarinnar hafa haldið á lofti. AFP

Popúlistar víða um Evrópu hafa keppst við að nota hryðjuverkið í Berlín sem grundvöll fyrir gagnrýni á stefnu Þýskalands í málefnum innflytjenda.

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins UKIP og bandamaður Donalds Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, hefur sagt að árásin ætti ekki að koma neinum á óvart. Hún myndi þá verða hluti af arfleifð Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

„Merkel hefur með beinum hætti orsakað fjölda vandamála fyrir Þýskaland, bæði félagslegra og svo hryðjuverka. Það er kominn tími til að við horfumst í augu við þann sannleika,“ sagði Farage í viðtali á útvarpsstöðinni LBC á þriðjudag.

Slóvakíski forsætisráðherrann Robert Fico sagði þá að árásin hefði verið „síðasti dropinn í glas þolinmæðinnar“, hvað varðaði flóttamannavandann í Evrópu.

Aðeins nokkrum klukkustundum eftir árásina á mánudag skellti hollenski þingmaðurinn Geert Wilders sökinni á evrópska leiðtoga, fyrir að hafa leyft hælisleitendum að koma inn í álfuna.

„Merkel, Rutte [forsætisráðherra Hollands] og allir hinir huglausu stjórnmálaleiðtogarnir hafa hleypt inn íslömskum ógnvaldi og flóðbylgju hælisleitenda, með stefnu sinni um opin landamæri,“ tísti Wilders, og bætti við mynd af Merkel, sem átt hefur verið við.

Lögregla leitar að Túnisbúa

23 ára pakistanskur hælisleitandi var handtekinn strax í kjölfar árásarinnar á mánudagskvöld, en hann var sagður hafa flúið vettvang. Honum var þó sleppt úr haldi lögreglu á þriðjudag.

Lögreglan gaf það svo út í gær að hún leitaði að öðrum manni sem grunaður er um að hafa framið árásina. Er hann Túnisbúi, rétt yfir tvítugu, sem sótti um hæli í aprílmánuði og hefur síðan haft tímabundið landvistarleyfi.

Merkel hefur lengi mætt gagnrýni fyrir þá ákvörðun að hleypa inn í landið um milljón flóttamönnum, margir hverjir voru að flýja hið stríðshrjáða Sýrland, síðustu tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert