Heimurinn orðinn hræddari og klofnari

Frans páfi veifar fjöldanum í morgun.
Frans páfi veifar fjöldanum í morgun. AFP

Frans páfi hvatti til friðar í Mið-Austurlöndum í jólaávarpi sínu í dag. Kallaði hann eftir vopnahléi í Sýrlandi og sagði allt of marga hafa fallið í stríðinu sem hefur staðið yfir í tæp sex ár.

40.000 manns hlustuðu á páfann á torginu fyrir utan Péturskirkjuna í Vatikaninu í morgun en þrátt fyrir gott veður fylltist torgið ekki. Öryggisstig í Evrópu hefur verið mjög hátt síðustu daga eftir að tólf létu lífið í árás á jólamarkað í Berlín í síðustu viku. Sagðist páfinn vona að þeir sem misst hefðu ástvin í hryðjuverkaárásum fengju frið.

Mikið eftirlit er nú í Evrópu vegna hryðjuverkaógnar. Við dómkirkjuna í Mílanó mátti sjá þungvopnaða öryggisverði en inngangurinn í kirkjuna hefur verið lokaður frá því að árásin var framin í Berlín. Gerandinn í árásinni, Anis Amri, fannst í Mílanó og lést í skotbardaga við lögreglu á föstudaginn. Þá eru 91.000 liðsmenn öryggissveita á vakt í Frakklandi yfir jólin og standa þeir vörð um almenningssvæði eins og kirkjur og markaði.

Árásin í Berlín setti mark sitt á helgihald í Þýskalandi í gær og í dag en hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð.

Biskupinn í Rothenburg, Gebhard Fuerst, sagði jólin í ár bera stórt sár. „Við höldum upp á þessa hátíð öðruvísi í ár,“ sagði Fuerst.

Sömu sögu mátti segja í Ísrael en þar voru vopnaðir verðir áberandi er fólk hélt upp á jól og gyðingahátíðina Hanukkah. Um 2.500 manns söfnuðust saman við Fæðingarkirkju Krists, sem talinn er vera fæðingastaður Jesú Krists í Betlehem í gærkvöldi. Erkibiskupinn Pierbattista Pizzaballa kallaði þar eftir samkennd með flóttafólki og að ofbeldið í Mið-Austurlöndum yrði stöðvað.

Frans páfi tók í svipaðan streng í gærkvöldi, þar sem hann ávarpaði 10.000 manns. Kallaði hann eftir samkennd gagnvart börnum, sérstaklega stríðsfórnarlömbum, flóttamönnum og heimilislausum.

Justin Welby, erkibiskupinn í Canterbury, sagði að árið 2016 hafi heimurinn orðið hræddari og klofnari. „Við endalok ársins 2016 erum við í öðruvísi heimi, hann er ófyrirsjáanlegri og gagntekinn af ótta og klofningi,“ sagði hann í prédikun sinni í morgun.

Messað í Betlehem í gærkvöldi.
Messað í Betlehem í gærkvöldi. AFP
mbl.is