Krömdu björn til dauða

Skógarbirnir í dýragarði. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki.
Skógarbirnir í dýragarði. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki. AFP

Yfirvöld í Rússlandi kanna nú myndband sem vakið hefur mikla hneykslun sem sýnir hóp manna keyra ítrekað yfir skógarbjörn á jeppum í Síberíu. Í myndbandinu heyrist einn mannanna hrópa „Kremdu hann! Kremdu hann!“. Umhverfisráðherrann segir að fangelsa eigi menn fyrir dýraníð af þessu tagi.

Svo virðist sem að einn árásarmannanna hafi tekið myndbandið upp en því hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum og verið tekið upp í fjölmiðlum. Þar sjást mennirnir á jeppum sem olíu- og námavinnumenn nota yfirleitt keyra yfir skógarbjörn sem situr í snjónum. Yfirvöld í Jakútíu segjast kanna hvort að mennirnir hafi gerst sekir um dýraníð eins og það er skilgreint í hegningarlögum.

Eftir að mennirnir hafa keyrt yfir björninn nokkrum sinnum reynir hann að standa upp og heyrast mennirnir þá segja „Hann er lifandi“ og pota þeir í dýrið með málmstöng.

„Við munum sækjast eftir hörðustu refsingu yfir þessum þrjótum,“ skrifaði Sergei Donskoi, umhverfis- og auðlindaráðherra Rússlands á Facebook-síðu sína og lýsti verknaðinum sem „blóðbaði“.

„Slíkum glæpum ætti að fylgja raunveruleg fangelsisrefsing!“ skrifaði hann jafnframt.

Birnir sem fara ekki í hýði fyrir veturinn geta verið hættulegir og eru oft skotnir með leyfi yfirvalda ef þeir hætta sér of nærri mannabyggð.

Mikla reiði vakti einnig annað myndband sem birtist í fyrra af byggingarverkamanni í herstöð við Norður-Íshafið sem gaf ísbirni púðurkerlingu að éta. Heyrðist dýrið öskra af sársauka þegar flugeldurinn sprakk upp í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert