Haldið án ákæru í 132 daga

Fjölmargir mótmæltu fyrir utan dómshúsið í morgun.
Fjölmargir mótmæltu fyrir utan dómshúsið í morgun. AFP

Einn helsti skáldsagnahöfundur Tyrklands var leiddur fyrir dómara í dag sakaður um hryðjuverkaáróður. Þetta er í fyrsta skipti sem Asli Erdoğan, 49 ára, kemur fyrir dómara en hún hefur setið á bak við lás og slá í 132 daga.

Mál hennar hefur vakið ugg meðal almennings í Tyrklandi og víðar og efast margir um að tjáningarfrelsið sé hátt skrifað meðal ráðamanna landsins. Erdoğan tengist dagblaði sem stjórnvöld í Tyrklandi segja málpípu fyrir Verkamannaflokk Kúrdistans, PKK. 

Auk hennar var Necmiye Alpay, 70 ára,  heimsþekktur þýðandi, dregin fyrir dómara í dag. Hún hefur setið í fangelsi í 120 daga án þess að henni hafi verið birt ákæra. Alpay hefur meðal annars þýtt margar þekktar vestrænar bækur á tyrknesku á undanförnum árum.

Þær voru handteknar í ágúst í tengslum við rannsókn á dagblaðinu Ozgur Gundem. Blaðinu hefur nú verið lokað þar sem stjórnvöld í Tyrklandi töldu það of vilhallt Kúrdum.

Alls voru níu handteknir í tengslum við rannsóknina á Ozgur Gundem og hafa þeir allir verið ákærðir. Erdoğan tengist ekki á nokkurn hátt forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, þrátt fyrir sama ættarnafn en það er mjög algengt í Tyrklandi.

Samkvæmt upplýsingum frá P24, sjálfstæðum blaðamönnum í Tyrklandi, hafa 118 blaðamenn verið handteknir í Tyrklandi síðan neyðarástandi var lýst yfir í kjölfar valdaránstilraunar um miðjan júlí. 

Í dag var blaðamaðurinn Ahmet Sik, sem hefur hlotið verðlaun fyrir skrif sín, handtekinn vegna Twitter-færslna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert