Við fatnaðinn að sakast

AFP

Indverskur ráðherra hefur sætt harðri gagnrýni eftir að hafa sett út á klæðaburð kvenna á gamlárskvöld. Sagði hann að þær hafi klætt sig líkt og vestrænar konur og það skýri hvers vegna ráðist var á þær. Fjölmargar tilkynningar hafa borist um kynferðislegt ofbeldi í borginni Bangalore á gamlárskvöld.

Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við ofbeldið en í indverskum fjölmiðlum hafa verið birtar myndir af fórnarlömbum í hnipri eftir slíkar árásir eða á flótta undan árásarmönnum. Eins hafa birst frásagnir fórnarlamba og vitna af ofbeldisverkum sem framin voru í mannmergðinni. Að sögn lögreglu er verið að fara yfir myndir úr öryggismyndavélum og skoðað hvort hægt sé að bera kennsl á einhverja árásarmenn. 

Innanríkisráðherra í Karnataka-ríki, en Bangalore er stærsta borgin þar, G Parameshwara, lét hafa eftir sér í The Times Now að fjölmörg ungmenni, sem hafi verið nánast eins og vesturlandabúar, hafi komið saman á götum úti. Þau reyni að líkja eftir vesturlandabúum, ekki bara í hugsun heldur einnig í klæðaburði. Einhver ólæti urðu og einhverjar stúlkur urðu fyrir áreitni en það er eitthvað sem bara gerist, segir hann.

Parameshwara, sem sagði síðar að ekki hafi verið rétt haft eftir honum, er harðlega gagnrýndur fyrir þessi ummæli í dag og segir ríkisstjóri Karnataka þau vera óábyrg. Ekki sé hægt að líða hópáreitni og refsa þurfi þeim sem beri ábyrgð. Nauðsynlegt sé að tryggja öryggi kvenna í siðuðu samfélagi.

Lalitha Kumaramangalam, sem stýrir landssamtökum kvenna á Indlandi, segir að Parameshwara eigi að segja af sér út af ummælunum en þau voru birt í ljósvakamiðlum eftir að hann reyndi að sverja þau af sér. 

Hún segist vilja spyrja ráðherrann að því hvort indverskir karlmenn séu svo aumkunarverðir að þeir geti ekki horft á konur í vestrænum fötum án þess að missa stjórn á sér.

„Hvenær ætla indverskir karlar að læra að virða konur? Ráðherrann á að biðja konur landsins afsökunar og segja af sér,“ bætti hún við.

Árásirnar í Bangalore þykja minna mjög á árásir í þýsku borginni Köln fyrir ári síðan þegar lögreglan þar var sökuð um að hafa misst stjórn á ástandinu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert