Talinn hafa snætt kvöldverð með Amri

Frá vettvangi árásarinnar í Berlín.
Frá vettvangi árásarinnar í Berlín. AFP

Lögreglan í Berlín hefur handtekið Túnisa, sem grunaður er um að hafa snætt kvöldverð með landa sínum Anis Amri, kvöldið áður en hann keyrði vörubíl inn á fjölmennan jólamarkað 19. desember.

Tólf manns létust í árásinni, en Amri flúði til Ítalíu þar sem hann var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó.

Rannsakendur telja að 26 ára félagi hans, Bilel A, hafi annaðhvort skipulagt árásina með Amri eða að minnsta kosti vitað af fyrirætlan hans.

Lögreglan segir að hann hafi verið handtekinn vegna gruns um bótasvindl, þar sem hún hefur ekki næg sönnunargögn til að halda honum annars, samkvæmt frétt BBC.

Leitað í skýli fyrir hælisleitendur

Talsmaður ríkissaksóknara Þýskalands, Frauke Koehler, segir að þeir hafi þekkst síðan árið 2015. Þá hafi þeir mælt sér mót á veitingastað kvöldið fyrir árásina og átt þar „ákafar samræður“.

Leitað hefur verið á heimili mannsins, í skýli fyrir hælisleitendur, og samskiptatæki hans tekin til greiningar, bætir Koehler við. Maðurinn er talinn hafa notast við að minnsta kosti tvö fölsk nöfn í nokkrum þýskum borgum árið 2015.

Fyrrum herbergisfélagi Amri sætir þá einnig rannsókn. Amri reyndi tvisvar að hafa samband við hann á degi árásarinnar, en ekki er ljóst hvort þeir náðu tali af hvor öðrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert