Manning á stuttlista Obama?

Chelsea Manning.
Chelsea Manning. AFP

Fregnir herma að uppljóstrarinn Chelsea Manning sé á stuttlista Barack Obama Bandaríkjaforseta yfir einstaklinga sem hafa óskað eftir því að vera náðaðir. Manning hefur biðlað til forsetans um miskunn og segir þetta síðasta tækifæri sitt í langan tíma til að öðlast frelsi.

Manning hefur setið í fangelsi í sex ár fyrir að leka þúsundum gagna í eigu bandaríska ríkisins, s.s. samskiptum sendiráða og myndabandsupptökum sem varpa ljósi á aðgerðir bandaríska hersins.

Talið er ólíklegt að Donald Trump, sem tekur við forsetaembættinu 20. janúar nk., muni líta mál hennar mildum augum.

Manning sagði í samtali við Guardian að áfrýjun máls hennar myndi taka mörg ár. „Ég hef varið næstum öllum fullorðinsárum mínum annaðhvort heimilislaus, í hernum eða í fangelsi. Ég hef ekki fengið tækifæri til að lifa lífínu,“ sagði hún.

Á meðan hann situr í embætti hefur Obama vald til að náða einstaklinga sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi eða stytta dóma þeirra. Lögmaður Manning, Nancy Hollander, segir forsetann verða að grípa inn í áður en það verður of seint og stytta dóm Manning í þau sex ár sem hún hefur þegar afplánað.

„Chelsea hefur þegar verið fangelsuð lengur en nokkur annar uppljóstrari. Hún er viðkvæm. Hernum ber skylda til að annast hermenn sína en hefur brugðist henni algjörlega. Honum hefur mistekist að sjá um hana og mistekst það enn, og þarf að sleppa henni.“

Bæði dómsmálaráðuneytið og herinn hafa hafnað náðarumleitunum Manning. Lögmenn hennar segja þeim hins vegar beint til Obama sjálfs.

Í desember sl. skrifuðu meira en 100.000 manns undir beiðni á vefsíðu Hvíta hússins þar sem kallað var eftir náðun Manning. Samkvæmt viðmiðum forsetans ber Hvíta húsinu að svara öllum beiðnum sem ná þeim fjölda undirskrifta innan 60 daga.

Dagarnir 60 verða ekki allir fyrr en eftir að Obama lætur af embætti. Guardian óskaði eftir upplýsingum um stöðu beiðninnar og óskar Manning um náðun en fékk ekkert svar frá forsetaembættinu.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert