Verða utan innri markaðar ESB

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í dag við flutning ræðunnar.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í dag við flutning ræðunnar. AFP

Bretland getur ekki undir nokkrum kringumstæðum verið áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins enda þýddi það að Bretar myndu alls ekki yfirgefa sambandið. Þetta sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu sem hún flutti í Lancaster House í London í dag þar sem hún greindi frá því með hvaða hætti Bretar muni ganga úr Evrópusambandinu. Samþykkt var að ganga úr sambandinu í þjóðaratkvæði í Bretlandi síðasta sumar.

May sagði hins vegar samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC að ríkisstjórn hennar hefði í hyggju að semja við Evrópusambandið um eins greiðan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og mögulegt væri í kjölfar þess að Bretland segir skilið við sambandið. Hún greindi enn fremur frá því að báðar deildir breska þingsins, neðri deildin og lávarðadeildin, fengju tækifæri til þess að greiða atkvæði um endanlegan samning við Evrópusambandið um úrsögn Bretlands þegar hann lægi fyrir.

Frá flutningi ræðunnar í dag.
Frá flutningi ræðunnar í dag. AFP

Forsætisráðherrann hét því enn fremur samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að Bretar myndu ekki lengur greiða háar fjárhæðir til Evrópusambandsins. Lögð yrði enn fremur meðal annars áhersla á að semja um tollfrjáls viðskipti við sambandið, viðhalda ferðafrelsi á milli Norður-Írlands og Írlands, semja um nýja viðskiptasamninga við ríki utan Evrópusambandsins og áframhaldandi samstarf á sviði leyniþjónustu- og lögreglumála.

Enn fremur hefur ríkisstjórn Bretlands lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að taka í eigin hendur að fullu stjórn innflytjendamála landsins. Þá sagði May bresk stjórnvöld vilja að úrsögn Bretlands ætti sér stað skref fyrir skref þannig að hagsmunum viðskiptalífsins yrði ekki stefnt í hættu. Hún varaði Evrópusambandið við því að beita Breta refsiaðgerðum vegna úrsagnarinnar enda myndi það verða til þess að skaða hagsmuni ríkja sambandsins. 

Ráðherranir Boris Johnson, Liam Fox og Amber Rudd hlýða á …
Ráðherranir Boris Johnson, Liam Fox og Amber Rudd hlýða á ræðu May. AFP

Forsætisráðherrann lagði enn fremur áherslu á að með úrsögninni væru Bretar að opna fangið gagnvart heiminum. Bretland myndi áfram laða að sér hæfileikafólk alls staðar að. Bretar yrðu hins vegar að fara með stjórn landamæra sinna sjálfir. Breskir kjósendur hefðu kosið með bjartari framtíð fyrir Bretland og að landið yrði í kjölfarið sterkara, réttlátara og sameinaðra. Saga Bretlands sýndi að Bretar væru í eðli sínu alþjóðasinnar og svo yrði áfram.

Við ríki Evrópusambandsins sagði May að Bretland yrði áfram traustur samstarfsaðili þeirra, viljugur bandamaður og náinn vinur. „Við viljum kaupa vörur ykkar, selja ykkur okkar vörur, eiga í eins frjálsum viðskiptum við ykkur og mögulegt er og vinna með ykkur að því að tryggja öryggi okkar og velmegun með áframhaldandi vinskap. Hún kallaði eftir nýju samstarfi á jöfnum grundvelli. Ekki fyrirkomulagi þar sem Bretland yrði að hluta til í sambandinu.

Theresa May í ræðustólnum.
Theresa May í ræðustólnum. AFP

„Við ætlum ekki að ganga inn í fyrirkomulag sem önnur ríki búa við. Við ætlum ekki að halda í hluta af aðildinni [að Evrópusambandinu] þegar við hverfum á braut,“ sagði May. Breskir kjósendur hefðu kosið með opin augu og vitað hvað þeir voru að greiða atkvæði um. Breska þjóðin væri að sameinast í kjölfar þjóðaratkvæðisins. Tímabært væri að binda endi á andstæðar fylkingar í málinu og talsmátanum sem hefði fylgt þeim og snúa bökum saman og tryggja að úrsögnin úr Evrópusambandinu skilaði sem hagstæðastri niðurstöðu fyrir Bretland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert