Andstæðingur Pútíns fluttur á sjúkrahús

Vladimír Pútín á blaðamannafundi í Búdapest fyrr í dag.
Vladimír Pútín á blaðamannafundi í Búdapest fyrr í dag. AFP

Þekktur andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hefur verið lagður inn á sjúkrahús, alvarlega veikur, tveimur árum eftir að hann lést næstum því í kjölfar mögulegrar eitrunar.

Vladimír Kara-Murza, sem er blaðamaður og starfar fyrir lýðræðissamtökin Open Russia, veiktist klukkan fimm í nótt að staðartíma, eða klukkan tvö eftir miðnætti að íslenskum tíma.

Eiginkona hans sagði í samtali við fréttastofu BBC fyrr í dag að hún væri á leið á sjúkrahúsið, þar sem honum er haldið sofandi.

„Hann er þegar kominn í öndunarvél og er haldið í dái. Þetta eru sömu einkennin,“ sagði hún, en Kara-Murza lést næstum þegar nýru hans biluðu skyndilega árið 2015.

„Orsakirnar eru óljósar eins og síðast. Hann hefur verið virkur og hraustur að undanförnu.“

Aldrei fékkst botn í það hvað hefði orsakað síðustu veikindi Kara-Murza, en sýni gátu staðfest að hann hefði innbyrt eitrað efni.

Kara-Murza, sem þá var 33 ára, var haldið sofandi í næstum viku og átti erfitt með samskipti þegar hann komst loks til meðvitundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert