Trump-dúkka vekur athygli

AFP

Brúðuframleiðandi í Hong Kong, sem þekktur er fyrir að gera umdeildar fígúrur af þjóðarleiðtogum, hefur kynnt til sögunnar nýja dúkku af Donald Trump Bandaríkjaforseta.  Frumgerð dúkkunnar er nú til sýnis í leikfangaversluninni Seven í Hong Kong og hafa um 300 stykki þegar verið forpöntuð.

Pantanir hafa meðal annars borist frá Bandaríkjunum en athygli vekur að hægt er að skipta út bæði höndum og höfði dúkkunnar.


Trump bætist með þessu í hóp með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Jósef Stalín, fyrrverandi einræðisherra Sovétríkjanna, sem einnig hafa verið gerðar af brúður, þó í takmörkuðu upplagi. Fyrirtækið sendi einnig frá sér Obama-brúðu á sínum tíma þegar hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna fyrir átta árum.

Dúkkan hefur vakið mikla athygli.
Dúkkan hefur vakið mikla athygli. AFP


Dúkkan er 30,5 sentímetrar að hæð en henni fylgja rauð derhúfa með áletruninni „Make America Great Again,“ sem var slagorð Trumps í kosningabaráttunni, og ræðupúlt. Þá er hægt að skipta út höndum brúðunnar og höfði þannig að hægt er að láta hana sýna ólík svipbrigði.


Brúðan kostar um 120 Bandaríkjadali eða um 13.500 kr. íslenskar og hafa blendin viðbrögð verið við brúðunni að sögn Howards Cheung, stofnanda leikfangaframleiðandans Dragon in Dream (DiD), sem framleiðir brúðuna. „Þessi hefur klárlega fengið meiri viðbrögð og verið sýndur meiri áhugi en öðrum brúðum,“ sagði Cheung í samtali við AFP.

„Sóun á tíma og plasti!"

Verslunarstjóri leikfangaverslunarinnar, þar sem brúðan er nú til sýnis, segir að viðbrögð við henni hafi verið ákaflega mikil en 50 brúður hafa þegar verið forpantaðar í gegnum heimasíðu verslunarinnar. „Kannski er það ögrandi stíll Trumps, hann hefur vakið mikla athygli,“ segir verslunarstjórinn.

Þá sagði einn viðskiptavina verslunarinnar í samtali við AFP að hann hefði pantað sér eintak af dúkkunni til að bæta við fígúrusafn sitt af sögufrægum persónum á borð við Napóleon, Hitler og líbýska einræðisherrann Muammar Gaddafi.

Alls fylgja fjögur sett af höndum með dúkkunni sem hægt ...
Alls fylgja fjögur sett af höndum með dúkkunni sem hægt er að skipta út. /AFP

„Ég held að hver sem er sé betri en Hillary Clinton, þar á meðal Donald Trump,“ sagði safnarinn sem er maður á fertugsaldri búsettur í Hong Kong.

Á Facebook-síðu framleiðandans hafa verið birtar myndir af brúðunni spóka sig á hinum ýmsu stöðum í borginni þar á meðal í karaoke-svítu.

Á meðan sumir panta sér eintak af dúkkunni fullir eftirvæntingar eru þó aðrir sem hneykslast á uppátækinu. „Þetta er bæði sóun á tíma og plasti! Fylgja kannski hvítar hettur og kuflar með?“ skrifaði einn Facebook-notandi í athugasemd við mynd af brúðunni.

„Almáttugur þeir verða að geyma þetta læst inni,“ skrifaði þá annar notandi og bætti við að hendur brúðunnar væru of stórar og vísaði þannig í sögusagnir um að í raun sé Donald Trump með afar litlar hendur.

Einnig er hægt að skipta út höfði dúkkunnar og þannig ...
Einnig er hægt að skipta út höfði dúkkunnar og þannig láta hana sýna ólík svipbrigði. /AFP
mbl.is
Til sölu Færeyingur Haffrúin 6032
Gengur í Strandveiðina, Ný vél, vökvagír, skrúfa og mælaborð, nýtt rafkerfi,raf...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...
Vetur í Biskupstungum...
Eigum laust sumarhús í mars/april í nokkra daga. Hlý og kósí hús með heitum pot...