Falskar fréttir fara á flug

Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum náðu ýmsar falskar fréttir flugi.
Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum náðu ýmsar falskar fréttir flugi. Skjáskot/CNN

Nær daglega gagnrýnir Donald Trump Bandaríkjaforseti fjölmiðla fyrir það sem hann segir „falskar fréttir“. Hann beinir spjótum sínum fyrst og fremst að ákveðnum fréttamiðlum, m.a. New York Times og CNN. Líklegt þykir að fréttir sem eru misvísandi, eða beinlínis rangar, fái byr undir báða vængi í því andrúmslofti sem nú ríkir í Bandaríkjunum og víðar. Óttinn skapar þær aðstæður að fólk gleypir frekar við slíkum fréttum, án allrar gagnrýni. Þá eru sannar fréttir sumar hverjar óraunverulegar í hugum fólks og meiri hætta er á að fólk taki mark á þeim sem eru það ekki.

Eitt dæmi um falska frétt varð í síðustu viku. Í grein sem birt var á vefnum AlternativeMediaSyndicate.com kom fram að lögreglumenn hefðu brennt til kaldra kola búðir frumbyggja við Standing Rock, þar sem þeir hafa haldið til síðustu mánuði og mótmælt lagningu olíuleiðslu um Norður-Dakóta. Með greininni fylgdi mynd af alelda tjöldum. Fréttinni var deilt meira en 270 þúsund sinnum á Facebook. En í ljós hefur komið að ljósmyndin sem fylgdi er skjáskot úr sjónvarpskvikmynd frá árinu 2007 og að auki reyndist það sem fram kom í greininni að mestu uppuni. 

Tjöldin voru ekki brennd. Myndin sem fylgdi fréttinni var skjáskot ...
Tjöldin voru ekki brennd. Myndin sem fylgdi fréttinni var skjáskot úr sjónvarpskvikmynd.

„Þetta er mjög svekkjandi,“ segir Dallas Goldtooth, leiðtogi fólksins við Standing Rock, í grein Guardian um málið. Það var hann sem vakti athygli á því að greinin væri ekki sannleikanum samkvæm. „Það er svo mikið af villandi upplýsingum á kreiki.“

Hjálpuðu Trump – sköðuðu Clinton

Í kosningabaráttu Hillary Clinton og Donalds Trump gengu ásakanir á víxl um dreifingu falskra eða ónákvæmra frétta. Að mati sumra hjálpaði þetta Trump í sinni baráttu en skaðaði hins vegar Clinton. 

Nú þegar Trump er tekinn við völdum, og fréttir af ákaflega umdeildum ákvörðunum hans berast hratt út, er búið að undirbúa jarðveginn fyrir einmitt þetta: Dreifingu rangra upplýsinga og áróðurs. 

„Hver sá sem er á valdastóli mun verða skotmark [fyrir falskar fréttir],“ segir Eugene Kiely, ritstjóri FactCheck.org, stofnunar sem Facebook hefur tekið höndum saman við í þeirri viðleitni að greina falskar fréttir á samfélagsmiðlinum.

Í fréttaskýringu Guardian segir

að samkvæmt rannsóknum hafi margar falskar fréttir í umferð, þvert á hið pólitíska litróf, verið í gangi kosningabaráttunni vestanhafs. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna voru fréttir, sem þóttu styðja við baráttu Trumps, fleiri en þær sem stuttu við baráttu Clinton. Sumar þeirra voru mjög grófar, t.d. sú, sem barst víða, að Clinton hefði tengsl við barnaníðingshring.

Donald Trump hefur heitið því að halda lagningu olíuleiðslunnar í ...
Donald Trump hefur heitið því að halda lagningu olíuleiðslunnar í Norður-Dakóta til streitu. Því er nú mótmælt víða. AFP

Viðsnúningurinn

Sérfræðingar segja að þetta muni nú mögulega snúast við. Ritstjóri staðreyndasíðunnar Snopes segist hafa séð tilhneigingu í þá átt að undanförnu.

Fyrir utan þær fréttir sem eru birtar og eru beinlínis rangar er snúið út úr í fyrirsögnum og myndskeið með áróðri, sem oft á ekki við nein rök að styðjast, öðlast vængi á samfélagsmiðlum. 

Þá hefur það færst í vöxt að myndir, sem tengjast ekki efni fréttarinnar og eru beinlínis blekkjandi, eru birtar með þeim. 

Í frétt á countercurrentnews.com var því nýverið ranglega haldið fram að stjórn Norður-Dakóta hefði gefið lögreglumönnum „grænt ljós“ á að skjóta á mótmælendur.

Hvað fréttina um brennandi tjöld frumbyggjanna varðar hafði Guardian samband við Alternative Media Syndicate, fjölmiðilinn sem birti hana. Svörin sem fengust voru á þá leið að myndin af tjöldunum brenna hefði verið úr „myndasafni“ og hafi verið ætlað að vekja athygli á sjónvarpsmyndinni sem hún var tekin úr. 

Goldtooth segir að svo virðist sem fólk sé að reyna að ýkja hlutina til að fá athygli. „Það er óþarfi. Segðu bara söguna eins og hún er.“

Enn eitt dæmið um falska frétt er sú sem fjallaði um að Melania Trump ætlaði að selja skartgripi á vefsíðu Hvíta hússins. 

Gleypa við fréttum vegna ótta

Sá hópur frjálslyndra í Bandaríkjunum, sem óttast aðgerðir Trumps hvað mest, virðist gleypa nú frekar við boðskap falskra frétta. „Það kemur mér ekki á óvart að við séum að sjá villandi upplýsingar af vinstri væng stjórnmálanna [...] fólk vill upplýsingar sem láta því líða betur,“ hefur Guardian eftir Claire Wardle, yfirmanni hjá First Draft News, sem safnar og greinir gögn og upplýsingar fyrir fjölmiðla. Hún segir að fólk sé sérstaklega móttækilegt fyrir upplýsingum sem birtast í fréttagáttinni þeirra á samfélagsmiðlum. „Ef einhver vinur þinn deilir einhverju eða sendir eitthvað, þá treystir þú því. Þar með ertu orðinn ólíklegri til að líta gagnrýnum augum á málið.“

Guardian hefur eftir Judith Donath, sem starfar við Berkman Klein-miðstöðina í Harvard-háskóla, að fólk á vinstri væng stjórnmálanna sé þó gjarnara á að hrekja falskar fréttir og kanna staðreyndir en þeir sem eru á hægri vængnum.

mbl.is
Kvæði Bjarna Thorarensen 1847
Til sölu afar fágæt ljóðabók eftir Bjarna Thorarensen amtmann, Kvæði, prentuð í ...
LJÓSMYNDANÁMSKEIÐ 20. OG 22. FEB.
2ja DAGA LJÓSMYNDANÁMSKEIÐ 20. OG 22. FEB. 2ja daga byrjenda ljósmyndanámsk...
"Lítil" og gömul ritvél með @ óskast
Áttu svoleiðis vél í dóti sem er í góðu lagi? Sendu mér þá tölvupóst á: hagbokh...
 
Breyting á deiliskipulagi í flatey
Leikskólakennsla
Breyting á deiliskipulagi í Flat...
Félagsstarf
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, for...
Skipulag
Tilkynningar
Rangárþing ytra Auglýsing um skipulags...
Félagsstarf
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa frá kl. 9,...