Níðingarnir leyndust alls staðar

Níðingsverkin voru framin víða í Ástralíu.
Níðingsverkin voru framin víða í Ástralíu. AFP

Sjö prósent kaþólskra presta í Ástralíu voru sakaðir um barnaníð á árunum 1950 til 2010 en ásakanirnar voru aldrei rannsakaðar, segir í nýrri skýrslu um barnaníð meðal kirkjunnar þjóna í landinu sem kom út í dag.

Nefndin (Royal Commission into Institutional Responses to Child Sexual Abuse) fékk við rannsóknina upplýsingar um 4.444 tilvik sem tilkynnt voru til yfirmanna kirkjunnar þar sem yfir 15% presta kaþólsku kirkjunnar voru sakaðir um níðingsverk gagnvart börnum.

Stjórnvöld í Ástralíu skipuðu nefndina árið 2012 eftir að í meira en áratug hafði verið þrýst á stjórnvöld að rannsaka ásakanir um barnaníð innan kirkjunnar víðs vegar um Ástralíu. Rannsókninni er nú að ljúka eftir fjögurra ára vinnu sem meðal annars fólst í viðtölum við fólk sem varð fyrir ofbeldi af hálfu presta í barnæsku.

Gail Furness, lögmaðurinn sem leiðir viðtölin á vegum nefndarinnar, segir að alls séu 7% allra presta nefndir sem níðingar í rannsókninni. Vitnisburðurinn sé átakanlega líkur. Börnin sem báru fram ásakanir gagnvart kirkjunnar þjónum voru annaðhvort hunsuð eða það sem verra var – refsað. Ásakanir þeirra voru aldrei rannsakaðar en prestarnir mögulega færðir til í starfi, sagði Furness þegar hún kynnti skýrsluna á fundi með blaðamönnum í Sydney í dag.

Þegar þeir voru fluttir til í starfi fylgdi forsaga þeirra ekki með og enginn vissi neitt um það sem þeir höfðu verið sakaðir um. Skjölum var annaðhvort leynt eða þeim eytt. 

Meðalaldur barnanna sem urðu fyrir ofbeldinu var 10 ára hjá stúlkum og 11 ára hjá drengjum. Af 1.880 meintum barnaníðingum voru 90% karlar. 

Samkvæmt skýrslunni var St John of God Brothers-trúarreglan sýnu verst en rúmlega 40% af þjónum kirkjunnar eru sakaðir um barnaníð.

Nefndin hefur rætt við þúsundir manna sem enn eru á lífi og varð fyrir ofbeldinu sem átti sér stað víða, svo sem í kirkjum, munaðarleysingjaheimilum, íþróttaklúbbum, félagsstarfi ungmenna og í skólum.

Meðal þeirra sem voru nefndir til sögunnar er George Pell, fjármálastjóri Páfagarðs, en hann var yfirheyrður af nefndinni vegna þess hvernig hann tók á barnaníðingum sem störfuðu í skjóli kirkjunnar í Victoria-ríki á áttunda áratug síðustu aldar.

Frétt mbl.is: Níðingsverk í skjóli kirkjunnar

Pell var einnig sakaður um barnaníð þegar hann var erkibiskup í Sydney árið 2002 en var síðar hreinsaður af sök. Hann hefur alltaf neitað ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert