Telja lögin vera með Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti á leið um borð í Air Force …
Donald Trump Bandaríkjaforseti á leið um borð í Air Force One-forsetaflugvélina. Ráðamenn í Hvíta húsinu er sannfærðir um að ferðabann Trumps verði látið gilda. AFP

Ráðamenn í Hvíta húsinu eru öruggir um að þeir muni hafa betur í lagadeilunni um forsetatilskipun Donald Trumps Bandaríkjaforseta sem synjar ríkisborgurum 7 múslimaríkja um að koma til Bandaríkjanna. Þetta sagði Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins, við fréttamennum um borð í forsetaflugvélinni nú í kvöld.

„Lögin eru ljóslega með forsetanum,“ hefur Reuters eftir Spicer. „Hann hefur mjög breiða heimild til að gera það sem hann telur best til að vernda þjóðina og við erum mjög örugg um að hafa betur í þessu máli.“

Lögleg framkvæmd á valdi Trumps

Áfrýjunardómstóll sem skipaður er þremur dómurum mun hlýða á rök deiluaðila á morgun að því er fréttavefur Washington Post greinir frá og talið er að úrskurður kunni að liggja fyrir innan viku.

Í rökum sem stjórn Trumps sendi áfrýjunardómstólnum í dag er ferðabann forsetans sagt vera „lögleg framkvæmd“ á valdi hans og að alríkisdómstóllinn hefði gert mistök með því að setja lögbann á ferðabannið. 

Fréttavefur Los Angeles Times greindi frá því í dag að Kalifornía og 15 önnur ríki hafi nú bæst í hóp þeirra sem draga lögmæti forsetatilskipunarinnar í efa, en ríkin hafa öll sent frá sér álit til áfrýjunardómstólsins sem fjallar um málið, þar sem þau lýsa yfir stuðningi við lögbann al­rík­is­dóm­arans James Robart á ferðabann Trumps.

„Fyrir hönd tæplega 40 milljóna íbúa Kaliforníu stend ég við hlið ríkissaksóknara annarra ríkja við að viðhalda lögbanni á ferðabann Trump stjórnarinnar,“ sagði í yfirlýsingu frá Xavier Becerra, ríkissaksóknara Kalíforníu.

Álitið er einnig undirritað af ríkissaksóknurum Connecticut, Delaware, Illinois, Iowa, Maine, Maryland, Massachusetts, Nýju-Mexíkó, New York, Oregon, Pennsylvaniu, Rhode Island, Virginíu, Vermont og Kólumbíuríkis.

Sagði Becerra enn fremur „skeytingarlausa vanvirðu“ stjórnarinnar við stjórnarskrána hóta því að sundra kalifornískum fjölskyldum, ógna fjárhagi þeirra og velferð auk þess sem hún gengi gegn aldalangri bandarískri hefð.

Áfrýjunardómstóll sem skipaður er þremur dómurum mun hlýða á rök deiluaðila á morgun að því er fréttavefur Washington Post greinir frá og talið er að úrskurður kunni að liggja fyrir innan viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert