Nóbelsorðunni stolið

Kailash Satyarthi.
Kailash Satyarthi. RAVI RAVEENDRAN

Nóbelsorðu indverska aðgerðarsinnans Kailash Satyarthi var stolið af heimili hans í morgun og ekki nóg með það heldur var eftirlíkingu af orðunni einnig stolið.

Satyarthi hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2014 ásamt pakistanska aðgerðarsinnanum Malala Yousafzai.

Satyarthi er rafmagnsverkfræðingur að mennt. Hann hlaut friðarverðlaunin fyrir baráttu sína gegn barnaþrælkun og barnamansali. 

Hann hóf baráttuna fyrir alvöru árið 1980 þegar hann stofnaði hreyfinguna Bachpan Bachao Andolan (Björgum bernskunni), en hún bjargar börnum sem hafa verið neydd til að vinna fyrir lúsarlaun í verksmiðjum og öðrum vinnustöðum við skelfilegar aðstæður.

Rúmum tíu árum síðar skipulagði hann Heimsgöngu gegn barnavinnu, samtök um 2.000 hreyfinga og verkalýðsfélaga í 140 löndum, til að berjast gegn barnaþrælkun.

Satyarthi stóð einnig fyrir alþjóðlega merkinu RugMark sem vottar að teppi séu framleidd í verksmiðjum sem nota ekki börn við framleiðsluna.

Satyarthi segir að áhugi sinn á þessu málefni hafi vaknað þegar hann var sex ára og sá lítið barn hreinsa skó vegfarenda fyrir utan skóla í Delí. Hann hafi seinna komist að því að milljónir barna á Indlandi neyðist til að vinna í stað þess að ganga í skóla og fundið hjá sér köllun til að leysa vandamálið.

Í viðtali við BBC í morgun sagði hann að enginn hafi verið heima þegar brotist var inn í morgun og að lögregla í Delí sé að rannsaka innbrotið.

Auk orðunnar og eftirlíkingarinnar voru nokkrir aðrir hluti teknir en fjölskyldan sé enn að fara yfir eigur sínar og hvers þau sakna. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert