Auknar líkur á brotthvarfi Grikkja

Malloch telur að Grikkir ættu að taka drökmuna.
Malloch telur að Grikkir ættu að taka drökmuna. AFP

Grikkland hefði átt að yfirgefa evrusvæðið fyrir fjórum árum, þegar það hefði verið „auðveldara og einfaldara.“ Þetta segir Ted Malloch, sem Donald Trump hefur tilnefnt sem sendifulltrúa Bandaríkjanna við Evrópusambandið.

Malloch telur litlar líkur á því að evrusamstarfið lifi 18 mánuði í núverandi mynd. Þá segir hann spurninguna hvort það lifir yfir höfuð áleitna.

„Við höfum séð úrsögn Bretlands, það eru kosningar í öðrum Evrópulöndum; þannig að ég tel að þetta sé eitthvað sem mun koma í ljós á næsta eina, eina og hálfa ári.“

„Af hverju er Grikkland aftur á bjargbrúninni,“ spurði hann ennfremur í gríska spjallþættinum Istories. „Þetta virkar eins og deja vu, mun þetta einhvern tímann taka enda? Ég held að í þetta sinn verði ég að segja að það séu meiri líkur á að Grikkland gangi úr evrusamstarfinu.“

Malloch er athafnamaður og var einarður stuðningsmaður Brexit. Hann sagðist hjartanlega sammála ummælum sem Trump lét falla í október 2012, þessi efnis að Grikkir ættu ekki að hika við að taka aftur upp drökmuna.

Leiðtogar á Evrópuþinginu hafa kallað eftir því að Evrópusambandið hafni vali Trump á Malloch en hann hefur sagt að ef til vill þurfi að „temja“ sambandið og vísað til þess í sömu andrá að hafa átt aðkomu að því að fella Sovétríkin.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert