Sektaður fyrir að aðstoða flóttamenn

Franski bóndinn Cedric Herrou lýsir ánægju með úrskurð dómstólsins, sem …
Franski bóndinn Cedric Herrou lýsir ánægju með úrskurð dómstólsins, sem sýknaði hann af flestum ákæruliðum. AFP

Franskur bóndi hefur verið dæmdur til að greiða 3.000 evra sekt fyrir að hjálpa hælisleitendum yfir fransk-ítölsku landamærin. Bóndinn, Cedric Herrou, var einnig sakaður um að leyfa tugum flóttamanna að hafast við í húsvögnum á jörð sinni í Roya-dalnum í suðausturhluta Frakklands.

Fréttavefur BBC segir stuðningsmenn hampa Herrou sem mannréttindavini og hefur hann heitið að halda áfram að hjálpa hælisleitendum og segir það raunar vera borgaralega skyldu sína.

Málefni innflytjenda eru mikið deiluefni í Frakklandi nú um stundir og má búast við að þær setji svip sinn á forsetakosningarnar nú í vor.

Saksóknarinn í Nice fór fram á átta mánaða skilorðsbundinn dóm yfir Herrou, sem er orðinn táknmynd venjulegra Evrópubúa sem hafa komið til hjálpar hælisleitendum sem flúið hafa fátækt eða stríðsátök í Mið-Austurlöndum og Afríku.

Herrou kvaðst, við réttarhöldin yfir sér í síðasta mánuði, hafa gripið til aðgerða af því að „fólk ætti við vandamál að stríða“.

„Fólk hefur dáið á hraðbrautinni, það eru fjölskyldur sem þjást og síðan er það ríki sem hefur sett upp landamæri án þess að hafa nokkra stjórn á afleiðingum þess,“ hefur franska dagblaðið Le Monde eftir Herrou.

Franskir fjölmiðlar segja Herrou enn hýsa unglinga frá Súdan og Eritreu á landi sínu.

Herrou var sýknaður af öllum öðrum ákærum, utan sektargreiðslunnar fyrir að hjálpa fólki yfir landamærin, en hann hafði m.a. verið sakaður fyrir að finna 50 Erítreubúum skjól á ónýttum dvalarleyfisstað í eigu franska ríkislestafyrirtækisins SNCF.

Nokkur sambærileg mál hafa komið fyrir dómstóla í Suður-Frakklandi að undanförnu að sögn AFP-fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert