Felldu hættulegasta hryðjuverkamann Frakka

Rachid Kassim.
Rachid Kassim. AFP

Hættulegasti hryðjuverkamaður Frakklands, Rachid Kassim, er látinn. Kassim lést í loftárás í Írak og hefur það verið staðfest með lífsýnarannsókn.

Kassim var efstur á lista franskra yfirvalda yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn en talið er að hann hafi stýrt nokkrum hryðjuverkaárásum í Frakklandi undanfarin ár.

Franskir fjölmiðlar greina frá því í dag að lífsýni staðfesti að skotmark bandarísku leyniþjónustunnar í loftárás í nágrenni Mosúl er Kassim líkt og til stóð. Bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá því á föstudag að árásinni hafi verið beint að Kassim en ekki væri búið að staðfesta að hann hefði látist í árásinni. Frönsk yfirvöld tóku í sama streng en fjölmiðlar voru hins vegar á því að Kassim hefði látist í árásinni.

Rachid Kassim var þrítugur að aldri og háttsettur liðsmaður vígasamtakanna Ríki íslams. Talið er að hann hafi staðið á bak við árás á lögreglumann og konu hans í Frakklandi í fyrra en þau voru drepin í hnífaárás. Eins er Kassim talinn hafa staðið á bak við árásina á prest sem var skorinn á háls í franskri kirkju í fyrra.

Kassim notfærði sér Telegram dulmálsforritið til þess að stýra árásum hryðjuverkamanna í Frakklandi en Kassim var sjálfur staddur í Írak á svæðum sem eru undir stjórn Ríkis íslams.

Rachid Kassim er fæddur í Roanne í Loire-dalnum en foreldrar hans heita Leila og Mohammed Kassim. Faðir hans er frá Jen en móðir hans frá Alsír. Þau settust að í Roanne í gegnum fjölskyludsameiningu. Þau eru bæði trúuð en trúin hefur aldrei skipt þau neinu sérstöku máli. Rachid var ungur að árum þegar foreldrar hans skildu. Faðir hans er kvæntur franskri konu (sem er ekki múslími) og móðir hans er í sambúð og eiga þau þrjú börn saman.

Talið er að hann hafi öfgavæðst árið 2011 en á þeim tíma fór hann til Alsír. Þegar hann sneri aftur til Frakklands fór hann að mæta reglulega í moskuna í hverfinu sínu en leiðtogi hennar hótaði að banna Kassim að mæta til bæna vegna ofbeldisfullra viðhorfa hans. Hann reyndi fyrir sér sem rappari en náði litlum árangri á tónlistarsviðinu en textar hans fjölluðu meðal annars um hryðjuverk og hryðjuverkamenn. Hann fór ásamt eiginkonu og þremur börnum til Sýrlands árið 2012 til þess að berjast með vígasveitum Ríkis íslams.

Rachid Kassim er grunaður um að hafa einnig stýrt fleiri árásum frá Sýrlandi og einnig hvatt til hryðjuverka á netinu. Síðast sást hann á mynd í júlí, með svart skegg með vefjarhött á höfði þar sem hann hældi manninum sem drap 86 manns með því að aka inn í mannþröng á þjóðhátíðardaginn í Nice fyrir árásina.

Kassim naut töluverðra vinsælda á Facebook og Telegram en vinsældir hans jukust talsvert eftir að hann fór til Sýrlands. 

Upplýsingasíða um hryðjuverkamenn

Wikipedia

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert