„Drap þau öll, auðvitað“

Robert Durst við réttarhöldin í Los Angeles í gær. Hann …
Robert Durst við réttarhöldin í Los Angeles í gær. Hann er sakaður um að hafa tekið vinkonu sína af lífi árið 2000. AFP

Bandaríski auðjöfurinn Robert Durst játaði að hafa myrt nána vinkonu sína, Susan Berman. Þetta sagði vitni við réttarhöldin yfir Durst í Los Angeles í gær. 

Durst er 73 ára. Um ævi hans og störf var fjallað í þáttum á HBO-sjónvarpsstöðinni og í kjölfarið var hann handtekinn, grunaður um að hafa myrt vinkonu sína til margra ára. Morðið var í aftökustíl og vakti mikinn óhug er það var framið árið 2000. 

Berman var myrt skömmu áður en yfirheyra átti hana vegna hvarfs fyrstu eiginkonu Durts, Kathleen Durst. Eiginkonan hvarf sportlaust árið 1982 er hún dvaldi í sumarhúsi þeirra hjóna. 

Nathan Chavin, sem var vinur bæði Durst og Berman til fleiri ára, sagði í vitnisburði sínum við réttarhöldin að Durst hefði sagt sér frá dauða Berman yfir kvöldverði árið 2014.

Durst bauð Chavin í mat þar sem hann vildi ræða við hann um Berman og örlög fyrstu eiginkonu sinnar, að því er er Chavin sagði í vitnisburði sínum.

Robert Durst er umsvifamikill fasteignaeigandi. Hann er 73 ára og …
Robert Durst er umsvifamikill fasteignaeigandi. Hann er 73 ára og grunaður um þrjú morð. AFP

Hann segir Durst hafa sagt að hann hafi ekki haft „neitt annað val“ en að drepa Berman.

„Ég varð. Það var annaðhvort hún eða ég. Ég hafði ekkert val,“ hafði Chavin eftir Durst.

Chavin segir að Susan Berman hafi áður en hún dó sagt sér að Durst hefði játað að hafa myrt eiginkonu sína. Hún hefði farið fram á skilnað.

„Þarna var besti vinur minn að játa að hafa drepið annan besta vin minn,“ sagði Chavin. Hann segist hafa spurt Durst um örlög Kathleen en hann hafi ekki veitt sér nein svör.

Það var ekki fyrr en í gær sem það var gert opinbert að Chavin væri eitt helsta vitni saksóknarans í málinu. Hefði nafn hans verið gefið upp fyrirfram hefði lífi hans verið ógnað. 

Durst er umsvifamikill fasteignaeigandi í New York-ríki. Hann neitar að hafa myrt Berman.

Hann var handtekinn í mars árið 2015 á hóteli í New Orleans, rétt áður en lokaþáttur um líf hans var sýndur á HBO-sjónvarpsstöðinni. Þáttaröðin hét The Jinx: The life and Deaths of Robert Durst.

Í þáttunum var fjallað um hvarf eiginkonu hans sem og morðið á Berman. Þá var einnig fjallað um dauða nágranna hans í Texas árið 2001 en lík hans fannst sundurlimað.

Á þeim tíma fór Durst huldu höfði í Texas og dulbjó sig sem mállausa konu, að sögn saksóknara. Hann sagðist hafa drepið nágrannann í sjálfsvörn og var sýknaður.

Durst kom sjálfur fram í þáttunum og á einum tímapunkti, er hann hélt að búið væri að slökkva á hljóðnemanum, mátti heyra hann muldra með sjálfum sér inni á baðherbergi: „Hvað í andskotanum gerði ég? Drap þau öll, auðvitað.“

Þessi hljóðupptaka var spiluð í lokaþættinum á HBO.

Durst hefur þegar verið dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir brot á vopnalögum en í samningi sem hann gerði við saksóknara í kjölfar handtöku sinnar í New Orleans, var hann fluttur í fangelsi í Los Angeles.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert