Prinsessan sýknuð

Hér má sjá Filippus, nú Spánarkonung, systur hans Cristinu og …
Hér má sjá Filippus, nú Spánarkonung, systur hans Cristinu og eiginmann hennar Inaki Urdangarin árið 2003. AFP

Cristina Spánarprinsessa var sýknuð í dag fyrir að hafa aðstoðað eiginmann sinn við skattaundanskot. Aftur á móti var eiginmaður hennar, Inaki Urdangarin, dæmdur í sex ára og þriggja mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Dómurinn var kveðinn upp í Palma á Mallorka.

Prinsessan er systir Filippusar Spánarkonungs, en hann tók við af Jó­hanni Karli föður sín­um árið 2014. 

Crist­ina er fyrst kon­ung­bor­inna Spán­verja til þess að þurfa að svara til saka í saka­máli. Dóm­ari á Mall­orka, José Castro, hef­ur rann­sakað ásak­an­irn­ar frá ár­inu 2010. 

Urdangarin var ákærður fyrir að hafa notfært sér tengsl í gegnum konungsfjölskylduna til þess að nýta tekjur góðgerðarstofnunar sem hann stýrði í eigin þágu.

 Málið hefur vakið mikla athygli enda er Cristina, eins og áður sagði, sú fyrsta úr spænsku konungsfjölskyldunni sem er ákærð frá því konungsdæmið var endurvakið árið 1975. Lúxuslíf þeirra hjóna sem og fleiri úr konungsfjölskyldunni hefur vakið litla hrifningu meðal almennings á Spáni en málið kom upp þegar efnahagskreppan beit sem fastast á Spáni.

Filippus konungur svipti hana og Urdangarin titlum sínum sem hertogi og hertogaynja af Palma de Mallorka árið 2015.

Þrátt fyrir að hafa verið sýknuð þarf hún að greiða 265 þúsund evrur í sekt vegna þess að hún naut ágóðans af svikum eiginmannsins. Hann þarf hins vegar að greiða 512 þúsund evrur í sekt.

Hjónin, sem búa í Sviss, voru ekki viðstödd dómsuppkvaðninguna en fastlega er gert ráð fyrir því að þau áfrýi. Þau hafa verið gift síðan árið 1997 og eiga fjögur börn. 

Urdangarin er fyrrverandi handboltamaður og státar meðal annars af ólympíutitli með spænska landsliðinu.

Ef Cristina hefði verið fundin sek hefði hún átt yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert