Samningur ESB við Tyrkland áfall

Aðstæður í flóttamannabúðum eru hræðilegar, sérstaklega í kuldanum.
Aðstæður í flóttamannabúðum eru hræðilegar, sérstaklega í kuldanum. AFP

Amnesty International telur að flóttamannasamningur Evrópusambandsins við Tyrkland hafi leitt til þess að þúsundir flóttamanna og farandfólks hírist við hörmuleg og hættuleg búsetuskilyrði í Grikklandi. Amnesty áréttar nauðsyn þess að önnur ríki taki ekki upp sambærilega samninga.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Amnesty en þar segir að samningur Evrópusambandsins við Tyrkland miði að endursendingum hælisleitenda til Tyrklands, byggt á þeirri forsendu að landið sé öruggt fyrir þá hælisleitendur sem þangað eru sendir.

„Samningur Evrópusambandsins við Tyrkland er stórkostlegt áfall fyrir þær þúsundir sem eru strandaglópar á grísku eyjunum í endalausri biðstöðu, í örvæntingu og hættu,“ sagði Gauri van Gulik, framkvæmdastjóri Evróputeymis Amnesty International.

„Það er falskur undirtónn í yfirlýsingum þjóðarleiðtoga Evrópu þegar þeir hampa samningnum og segja hann hafa skilað góðum árangri á meðan þeir loka augunum fyrir þeim óbærilega fórnarkostnaði sem samningurinn hefur leitt af sér með tilliti til þeirra sem þjást vegna hans,“ bætti Gulik við.

Segir ennfremur í tilkynningunni að afleiðingar samningsins séu að flóttafólk og hælisleitendur séu þvinguð til að búa við hörmuleg lífsskilyrði svo mánuðum skiptir í yfirfullum flóttamannabúðum, þar sem skortur er á heitu vatni, hreinlæti og næringu, ásamt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert