Dauðasveitir Duterte voru engin mýta

Arthur Lascanas játaði þátttöku sína í dauðasveitum Dutertes fyrir fjölmiðlum. …
Arthur Lascanas játaði þátttöku sína í dauðasveitum Dutertes fyrir fjölmiðlum. Hann segir drápin hafa verið fyrirskipuð af Duterte sem hafi greitt lögreglumönnum fyrir í reiðufé. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja starfrækti sérstaka „dauðaveit“ í tíð sinni sem borgarstjóri Davao. Greiddi lögreglumönnum í reiðufé og fyrirskipaði dráp á glæpamönnum að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir fyrrverandi lögreglumanni sem segist hafa tekið þátt í drápunum.

Arturo Lascanas, sem áður hafði neitað tilveru slíkrar dauðasveitar, segist nú hafa verið einn af höfuðpaurum sveitarinnar sem hóf starfsemi sína þegar Duterte varð borgarstjóri Davao árið 1988.

Duterte hefur ítrekað neitað því að hafa átt þátt í skipulögðum aftökum eða sjálfskipaðri lögtöku af þessu tagi. Segist hann hvorki hafa gert slíkt eftir að hann tók við embætti forseta, né heldur á þeim 22 árum sem hann var borgarstjóri Davao. Þá hefur lögreglustjóri Duterte neitað því að nokkurn tímann hafi verið starfrækt dauðasveit í Davao og segir slíkar sagnir vera tilbúning fjölmiðla.

Lascanas staðfesti hins vegar í dag að dauðasveitir Davao séu enginn mýta og að hann hafi verið í hópi þeirra sem framkvæmdu aftökur á fíkniefnasölum og glæpamönnum að beiðni Dutertes.

„Það er satt að Davao dauðasveitin, eða DDS, er raunverulega til,“ sagði Lascanas við fjölmiðla í þinghúsinu í höfuðborginni Manila.

„Þegar Duterte borgarstjóri tók til starfa í upphafi þá hófum við svo nefnda „björgun“ fólks. Þetta fólk var grunað um að fremja glæpi í Davao. Við leystum af hendi persónulegar tilskipanir Duterte borgarstjóra.“

Martin Andanar, sem fer með samskiptamál forsetaembættisins, segir fullyrðingar Lascanas eiga sér pólitískar rætur og að fjöldi stofnanna hefði sannað að ásakanir um að Duterte hafi fyrirskipað morð án dóms og laga væru falskar.

Lascanas er annar í röðinni til að tjá sig opinberlega um þátttöku í ólöglegum drápum sem Duterte hafi fyrirskipað. Lascanas, sem áður hafði neitað tilveru sveitanna segist hafa komist að þeirri niðurstöðu að hlýðni sín og tryggð við Duterte verði að ljúka og að hann hafi hafi lofað Guði að hann myndi játa.

Fengu 44.000-220.000 fyrir drápið

Lascanas sagði félaga í dauðasveitunum í Davao hafa fengið á bilinu 20.000-100.000 pesóa (44.000-220.000 kr.) fyrir drápið eftir því hvert virði skotmarksins var.

Lascanas lýsti þá þátttöku sinni í sprengingu á mosku og drápi á fjölskyldu mann sem grunaður var um mannrán. Meðal fórnarlambanna voru ólétt kona, ungur drengur og gamall maður. Duterte fyrirskipaði báðar þessar aðgerðir að hans sögn.

„Svona byrjaði þetta allt. Öll drápin sem við stóðum fyrir í Davao, hvort sem við grófum þá eða hentum þeim í sjóinn þá fengum við greitt af Duterte borgarstjóra,“ sagði Lascanas.

Mannréttindasamtök hafa skráð um 1.400 grunsamleg dauðsföll í Davao í stjórnartíð Dutertes og segja stríðið sem hann lýsti á hendur fíkniefnasölum eftir að hann settist á forsetastól bera öll sömu kennimerki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert