Segja lögregluna á hælum sér

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP

Hælisleitendur frá Sri Lanka sem komnir eru til Hong Kong óttast að lögreglan sé á hælum þeirra fyrir að hafa skotið skjólhúsi yfir bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden í borginni. 

Í frétt BBC er haft eftir lögfræðingi þeirra að lögreglumenn frá Sri Lanka hafi komið til Hong Kong í leit að þeim. Lögregluyfirvöld neita þessu.

Lögmaðurinn segir að í það minnsta tveir rannsóknarlögreglumenn frá Sri Lanka hafi komið til Hong Kong í desember og leitað mannanna. Hann segir að lögreglumennirnir hafi sagt öðrum Sri Lanka-mönnum í Hong Kong hverjir þeir væru. Þá hafi þeir verið með gögn og ljósmyndir meðferðis.

Talsmaður lögreglunnar á Sri Lanka segir þessar fréttir „hreina lygi“.

Hælisleitendurnir sem um ræðir hýstu Edward Snowden í Hong Kong í tvær vikur í júní árið 2013 eftir að hann flúði frá Bandaríkjunum í kjölfar birtingar trúnaðarupplýsinga frá Þjóðarör­ygg­is­stofn­un Bandaríkjanna.

Snowden flúði svo þaðan og til Rússlands. 

mbl.is