Fæddi á leiðinni á fæðingardeildina

Nýburi
Nýburi AFP

Innan við mánuði eftir að fæðingardeildinni var lokað í sænska bænum Sollefteå fæddist barn í bifreið á leiðinni á næstu fæðingardeild en sú er í um það bil 100 km fjarlægð frá Sollefteå.

Ákveðið var í haust að loka fæðingardeildinni í Sollefteå í haust og tók lokunin gildi um síðustu mánaðamót. Ástæðan er sparnaður og hversu illa gekk að fá sérhæft starfsfólk til starfa. Næsta fæðingardeild er í Örnsköldsvik eða Sundsvall og voru verðandi foreldrar á leið til Örnskoldsvik þegar fæðingin hófst í gærmorgun. Ekkert annað var í boði en að leggja út í kanti og taka á móti barninu. Móðirin skrifar um þessa lífsreynslu, sem hún segir vera martröð, í opinni færslu á Facebook.

„Þetta er það skelfilegasta sem ég hef lent í. Áfall og kraftaverk á sama tíma. Allt gekk vel líkamlega en hvað með andlega. Það á ekki að skipta minna máli. Skiptum við minna máli sem viljum ekki búa í stórborgum?“

Sjúkrabíll frá Örnsköldsvik kom á vettvang fljótlega eftir fæðingu barnsins og veitti fjölskyldunni þá aðstoð sem hún þurfti á að halda. Bæði móður og barni heilsast vel en þetta er annað barn móðurinnar.

Þegar fjallað var um væntanlega lokun fæðingardeildarinnar sagði Ewa Back, formaður heilbrigðisnefndar, að þetta myndi ekki setja sjúklinga í hættu en alls sparast 15 milljónir sænskra króna á lokun deildarinnar.

Frétt The Local

mbl.is