Milljónir án vatns í höfuðborg Chile

Íbúar Santiago birgja sig nú upp af vatni.
Íbúar Santiago birgja sig nú upp af vatni. AFP

Aurskriður í kjölfar úrhellisrigninga hafa mengað eina af stóru vatnsæðunum sem liggja að Santiago, höfuðborg Chile, með þeim afleiðingum að yfirvöld hafa þurft að loka á drykkjarvatn fjögurra milljóna íbúa borgarinnar.

Yfirvöld segja að lokað verði á vatn frá ánni Maipo til stórs hluta borgarinnar, þar til vatnið verði orðið tært á nýjan leik. Fréttavefur BBC segir íbúa nú birgja sig upp af flöskuvatni og að yfirvöld hafi fyrirskipað lokun veitingahúsa og fyrirtækja, þá hafi einnig verið tilkynnt um að skólar hefjist ekki á ný eftir vetrarfrí í dag líkt og til stóð.

Starfsfólk almannavarna segir að flóð og aurskriður sem fallið hafa úr Andesfjöllunum hafi einnig rofið vegi og því sé fjöldi fólks nú einangraður á því svæði.

„Um það bil 1,45 milljónir heimila finna fyrir þessum lokunum,“ sagði Claudio Orrego, fylkisstjóri Santiago. „Við vitum ekki enn þá hvenær vatninu verður aftur hleypt á.“ Það verði ekki gert fyrr en Maipo verður orðin tær og hvenær það verði ráðist af veðurfari næstu daga. Miklir vindar hafa verið yfir Andesfjöllum undanfarið sem hefur valdið úrhellisrigningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert