Fordómarúta á ferð um Spán

Meðlimir „Hazte Oír“ samtakanna mótmæltu í dag en rúta á …
Meðlimir „Hazte Oír“ samtakanna mótmæltu í dag en rúta á þeirra vegum var tekin af götum borgarinnar vegna skilaboða sem á henni stóðu. Talsmaður samtakanna hefur sagt að rútan haldi áfram ferð sinn, þrátt fyrir bannið. Mynd/AFP

Yfirvöld í Madríd hafa bannað appelsínugulri rútu með skilaboðinum „strákar eru með typpi, stelpur eru með píku“ að keyra um götur borgarinnar. Rútan er á vegum strangkristilegu samtakanna Hazte Oír (Láttu í þér heyra) sem berjast nú gegn réttindum trans fólks. Rútan hefur vakið mikla athygli en að því er fram kemur í umfjöllun El País fordæma flestir uppátækið.

Samtök fjölskylda trans barna fóru í janúar af stað með herferðina „Það eru til stelpur með typpi og strákar með píku. Þetta er svona einfalt“ og var markmiðið að vekja athygli landsmanna á ólíkri kynvitund barna.

Vegna þessarar herferðar tók hópur fólks sig saman um að safna undirskriftum um afturköllun hennar. Ekki söfnuðust nægar undirskriftir og því tók hópurinn á það ráð að setja í umferð rútu  sem á stendur „Strákar eru með typpi, stelpur eru með píkur. Ekki láta plata þig. Ef þú ert fæddur karlkyns, þá ertu karlkyns. Ef þú ert fædd kvenkyns, verðuru það áfram.“

Rútan fór í umferð á mánudaginn 27. febrúar og vakti strax mikla athygli almennings en margir hafa deilt óánægju sinni með aðgerðina á samfélagsmiðlum. „Transfóbía á ferð. Rútan sem hefur verið dulbúin með hatri er heldur áfram ferð sinni,“ segir einn á Twitter.

Fellur undir hatursorðræðu

Að því er fram kemur í umfjöllun El País sendi ráðhús Madrídar strax á þriðjudag frá sér tilkynningu þar sem kom fram að borgarstjórnin áliti að herferð Hazte Oír bryti gegn reglum sveitarfélagsins og félli undir hatursorðræðu.

Áætlað var að rútan færi um Valencia, Barcelona, Zaragoza, Pamplona, San Sebastián, Bilbao og Vitoria á næstu dögum en yfirvöld í Madríd og Katalóníu biðluðu í gær til ríkissaksóknara að grípa inn í málið. Þá hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sent frá sér yfirlýsingar þar sem herferð Hazte Oír er harðlega gagnrýnd.

Talsmenn Hazte Oír hafa þó sagt að þau muni halda herferðinni gangandi í dag, þrátt fyrir að yfirvöld í Madríd hefðu lagt bann við rútunni, og lá leið hennar til Valencia í dag þar sem hópur fólks sem berst fyrir réttindum hinsegin fólks hugðist blása til mótmæla.

Fána í translitunum hefur verið flaggað á ráðhúsi Valencia-borgar en samtökin höfðu sagt að Valencia væri næsti áfangastaður rútunnar. 

Hefja rannsókn á málinu

Í nýjustu grein El País kemur fram að fulltrúi dómsmálaráðuneytis sjálfstjórnarhéraðsins Madrídar þegar ákveðið að hefja rannsókn á herferðinni en hann telur líklegt að um sé að ræða refsiverða háttsemi í formi hatursorðræðu. Þá hefur héraðsdómari verið beðinn um að stoppa rútuna og banna ferðir hennar á meðan að „skilaboð sem ýta undir mismunun eru ekki tekin úr umferð.“

„Það eru hætta á herferðin raski friði almennings og skapi öryggisleysi og hræðslu meðal fólks vegna kynvitundar eða kynhneigðar þeirra, sérstaklega meðal ungmenna sem gætu orðið fyrir áhrifum vegna skilaboðanna,“ segir í bréfi frá fulltrúa dómsmálaráðuneytis Madrídar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert