Játar að hafa myrt fjölskylduna

AFP

Fyrrverandi mágur Pascal Troadec, Hubert L., hefur játað við yfirheyrslur að hafa myrt fjölskylduna, Pascal, Birgitte, Sébastien og Charlotte. Ekkert hefur spurst til fjölskyldunnar síðan hún hvarf aðfaranótt 17. febrúar. Le Parisien greinir frá þessu.

Þar kemur fram að loksins hafi ráðgátan verið leyst varðandi Troadec-fjölskylduna en samkvæmt heimildum Le Parisien, sem einnig vísar í Presse Océan og RTL, játaði Hubert á sig morðin við yfirheyrslur. Hann var handtekinn ásamt systur Pascals um helgina í tengslum við rannsókn málsins.

Troadec-fjölskyldan; Pascal, Brigitte, Charlotte og Sébastien.
Troadec-fjölskyldan; Pascal, Brigitte, Charlotte og Sébastien. AFP

Lífsýni úr Hubert, sem er 46 ára að aldri, fundust á glasi í eldhúsvaskinum á heimili Troadec-fjölskyldunnar í Orvault. Það vakti grunsemdir lögreglunnar þar sem hann sagðist ekki hafa hitt fjölskylduna árum saman.

Heimildir herma að ástæða ódæðisins hafi verið deilur um arf. Svo virðist sem Pascal Troadec hafi haldið eftir gullstöngum úr dánarbúi foreldra Troadec systkinanna og þetta hafi leitt til illdeilna innan fjölskyldunnar.

Saksóknari í Nantes, Pierre Sennès, hefur ekki staðfest fréttir þessara fjölmiðla um játningu mágsins en hann staðfesti í gær að systir og mágur Pascal Toradec hafi verið handtekin í Brest í gær.

Í frétt RTL segir að lífsýni úr Hubert hafi einnig fundist í bifreið Sébastien Troadec, 22 ára gömlum syni Pascal og Birgitte 49 ára, en bifreiðin fannst í vikunni sem leið í Saint- Nazaire. Við tæknirannsókn á bifreiðinni fundust blóðsýni sem og önnur lífsýni þrátt fyrir að bifreiðin hafi verið þrifin hátt og lágt.

Á grundvelli þessara upplýsinga var maðurinn handtekinn ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni í gær. Segir RTL að hann hafi að lokum játað eftir að hafa orðið ljóst að hann væri fastur í eigin lygavef.

RTL segir að ekki hafi neitt komið fram varðandi aðild systur Pascals að morðunum en hún hefur verið í haldi lögreglu frá því í gærmorgun. Engin lífsýni fundust úr henni á heimili Troadec-fjölskyldunnar í Orvault líkt og úr fyrrverandi eiginmanni hennar. Eins hefur ekki verið greint frá því hvort Hubert hafi upplýst lögreglu um hvar lík fjölskyldunnar, Pascal, Birgitte, bæði 49 ára og barna þeirra Pascal, Birgitte, Sébastien, 21 árs og Charlotte, 18 ára, er að finna.

Le Figaro birtir í dag tímalínu yfir það sem hefur gerst frá því fjölskyldan hvarf 

Uppfært klukkan 7:24

Flestir franskir miðlar eru nú komnir með fréttina um játningu mágsins fyrrverandi og samkvæmt AFP voru Hubert og systir Pascal strax í upphafi rannsóknarinnar yfirheyrð þrátt fyrir að hafa ekki verið handtekin fyrr en í gær. AFP talar um Hubert sem mág Pascal en flestir franskir fjölmiðlar segja að hann sé fyrrverandi mágur Pascal Troadec. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert