„Veiðileyfi á máttvana konur“

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Þúsundir kalla nú eftir því að kanadískur héraðsdómari verði sviptur embætti eftir að hann sýknaði leigubílstjóra af kynferðisofbeldi með þeim orðum að ölvaðir einstaklingar gætu augljóslega veitt samþykki.

Dómur Gregory Lenehan í Nova Scotia vakti mikla reiði en fleiri en 35.000 hafa ritað nafn sitt undir undirskriftalista þar sem kallað er eftir því að hann verði sviptur starfinu. Þá hafa tvær mótmælagöngur verið skipulagðar vegna málsins.

Málavextir eru þannig að árið 2015 kom lögreglumaður að ölvaðri, meðvitundalausri konu á þrítugsaldri aftur í leigubíl sem hafði verið lagt. Hún var nakin fyrir neðan mitti og hafði misst þvag.

Leigubílstjórinn, Bassam Rawi, hafði buxur hennar og nærföt á sér og var handtekinn.

Rannsóknir leiddu í ljós erfðaefni konunnar á efri vör leigubílstjórans, sem að sögn lögreglu var með opna buxnaklauf þegar komið var að.

Konan sagðist ekki muna hvernig það bar að að hún var í leigubifreiðinni en blóðrannsókn leiddi í ljós að áfengismagn í blóði hennar var þrefalt hærra en leyfilegt er við akstur.

Lenehan sýknaði Rawi í síðustu viku og sagði að þrátt fyrir að það léki enginn vafi á því að konan hefði verið ölvuð, réðist niðurstaðan af því hvort hún hefði veitt samþykki.

Sagði hann að meðvitundarlaus manneskja eða manneskja sem væri svo ölvuð að hún vissi ekki hvað væri í gangi gæti ekki gefið samþykki en ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að konan hefði ekki getað gefið samþykki né að hún hefði ekki gert það.

„Augljóslega þá getur ölvuð manneskja veitt samþykki,“ sagði dómarinn og: „Minnisskortur jafngildir ekki skort á samþykki.“

Að sögn Elizabeth Sheehy, lögfræðiprófessors við University of Ottawa, eru spurningar þegar á lofti um getu kanadíska dómskerfisins til að takast á við kynferðisofbeldi. Umrætt dæmi sé öfgakennt en ekki óalgengt.

Hún segir dóminn jafgilda veiðileyfi á máttvana konur.

Ítarlega frétt um má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert