Wikileaks ljóstrar upp um netnjósnir CIA

CIA er sagt geta lesið textaskilaboð og virkja myndavélar og …
CIA er sagt geta lesið textaskilaboð og virkja myndavélar og hljóðnema iPhone síma og iPad skjátölvu, auk þess að geta staðsett notandann. AFP

Uppljóstrunarsíðan Wikileaks hefur nú birt lýsingar á því sem forsvarsmenn síðunnar segja bandarísku leyniþjónustuna CIA nota til að brjótast inn í tölvuhugbúnað á borð við Windows, Android, iOS, OSX og Linux, sem og netþjóna tölvufyrirtækja. 

Fréttavefur BBC segir hluta hugbúnaðarins hafa verið þróaðann innan stofnunarinnar, en þó er breska leyniþjónustan MI5 sögð hafa aðstoðað t.a.m. við að þróa njósnabúnað sem komist  inn sjónvarpstæki Samsung fyrirtækisins.

Talsmaður CIA hefur ekki viljað staðfesta réttmæti upplýsinganna.  „Við tjáum okkur ekki um áreiðanleika eða innihald meintra leyniþjónustuskjala,“ hefur BBC eftir honum.

Þá er breska innanríkisráðuneytið ekki sagt hafa viljað tjá sig um fréttina.

Wikileaks segir heimildamann sinn hafa deilt upplýsingunum til að koma á stað umræðu um það hvort netnjósnahæfni CIA sé kominn fram úr því sem nauðsynlegt megi teljast.

BBC segir tilraunir til að brjótast inn í F8000 týpuna af Samsung snjallsjónvörpum hafa fengið heitið Weeping Angel, eða Grátandi engil, og þar er lýst hvernig notendur séu plataðir til að telja að slökkt hafi verið á tækinu. Svo er þó ekki heldur kviknar á upptökubúnaði sem sendir upplýsingarnar yfir á netþjóna CIA þegar kveikt er á tækjunum að nýju.

Þá er lagt til að í framtíðinni verði einnig hægt að nota tækið til að taka skjáskot af því sem sé að gerast. 

Forsvarsmenn Samsung hafa ekki tjáð sig um ásakanirnar.

Geta lesið textaboð, kveikt á myndavélum og upptökubúnaði

Wikileaks segir CIA einnig hafa komið sér upp vopnabúri af 24 „núll dögum“ fyrir Android tæknina – sem sé það heiti sem notað er fyrir áður þekkta öryggisgalla.

CIA er sagt hafa uppgötvað suma gallanna, en að stofnunin hafi einnig fengið upplýsingar frá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, bresku samskiptastofnuninni GCHQ, sem starfar fyrir MI5 og MI6, og öðrum aðilum.

Tæki frá Samsung, HTC og Sony eru meðal þeirra sem CIA er sagt geta brotist inn í til að lesa skilaboð sem send eru í Whatsapp, Signal, Telegram og Weibo svo dæmi séu tekinn.

Þá er CIA einnig sagt hafa sett upp sérstakt teymi sem sé að skoða iPhone síma og ipad skjátölvur, sem geri stofnuninni kleift að staðsetja viðkomandi einstakling, lesa textaskilaboð og virkja myndavélar og hljóðnema tækjanna.

Wikileaks segir upplýsingarnar sem birtar voru í dag, vera þær fyrstu í röð leka um aðgerðir CIA í netheimum sem verði birtar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert