CIA „algjörlega getulaus“

Julian Assange úti í glugga í sendiráði Ekvador í London. …
Julian Assange úti í glugga í sendiráði Ekvador í London. Þar hefur hann haldið til frá árinu 2012. AFP

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, sakar bandarísku leyniþjónustuna, CIA, um „algjört getuleysi“ fyrir að geyma leynilegar upplýsingar um tölvunjósnir á einum stað. Hann býður fram krafta sína við að hjálpa CIA við að koma skikki á þessi mál, nokkrum dögum eftir að hann átti þátt í því að leka trúnaðarupplýsingunum á netið.

„Þetta er sögulegt getuleysi, að hafa búið til slíkt vopnabúr og að allt sé geymt á einum stað,“ sagði Assange á blaðamannafundi sem hann hélt í sendiráði Ekvador í London og sýndur var í beinni útsendingu á netinu. Assange hefur haldið til í sendiráðinu frá því árið 2012. Hann óttast að vera framseldur til Svíþjóðar eða Bandaríkjanna fari hann út fyrir byggingu sendiráðsins.

„Það er ómögulegt að hafa góða stjórn á tölvuvopnum, ef þú býrð þau til munt þú að lokum glata þeim,“ sagði Assange. 

Hann segir að WikiLeaks búi yfir enn meiri upplýsingum um CIA og hvernig þeir njósna rafrænt um fólk. Hann segir að beðið verði með birtingu þeirra gagna þar til WikiLeaks hefur rætt við tækniframleiðendur um hvernig laga megi glufur sem hægt er að nota til njósna.

Hann sagði að WikiLeaks hefði ákveðið að vinna með þeim og gefa þeim aðgang að tæknilegum upplýsingum sem samtökin búi yfir svo að hægt sé að lagfæra glufur í hugbúnaði raftækja. „Þegar það hefur verið gert munum við birta ítarlegri upplýsingar um hvað hefur verið í gangi.“

Á þriðjudag birti WikiLeaks um 9.000 skjöl sem sögð voru koma frá CIA og sýna til dæmis hvernig leyniþjónustan notar raftæki til að njósna um fólk. 

Gögnin sýna að sögn WikiLeaks hvernig CIA notar t.d. sjónvörp til hlerana og geti jafnvel tekið yfir stjórn bíla fólks.

Flestir sérfræðingar telja að gögnin séu ósvikin og hefur Alríkislögreglan, FBI, hafið rannsókn á lekanum.

Ekki er ljóst hvaðan lekinn kemur. FBI mun m.a. skoða hvort CIA hafi ekki verndað gögnin nægilega vel eða hvort undirverktakar hafi haft aðgang að þeim, líkt og WikiLeaks heldur fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert