Óttast hleranir og skilur símann eftir

Sergei Lavrov var glaðbeittur á blaðamannafundinum í dag.
Sergei Lavrov var glaðbeittur á blaðamannafundinum í dag. AFP

Rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov segist ekki taka snjallsímann með sér þegar hann þarf að ræða viðkvæm málefni. Hann óttast að verða fórnarlamb tölvuþrjóta. WikiLeaks sagði frá því í vikunni að CIA notaði margvísleg snjalltæki til að hlera fólk.

„Ég segi fyrir mitt leyti að ég tek ekki símann með mér þegar um viðkvæm málefni er að ræða,“ sagði Lavrov á blaðamannafundi sem hann hélt með þýskum starfsbróður sínum, Sigmar Gabriel, í Moskvu í dag. „Mér virðist hafa tekist að forðast erfiðar stöður enn sem komið er.“

Lavrov fór svo að grínast með málið og sagði að CIA væri einnig að nota ísskápa til að hlera fólk.

Á þriðjudag birti WikiLeaks um 9000 skjöl sem sögð voru hluti af stórum upplýsingaleka frá leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA. Samkvæmt þessum skjölum hefur CIA stundað það að hakka sig inn í snjalltæki, búa til vírusa og annan hugbúnað til að ná valdi á raftækjum fólks, að sögn WikiLeaks.

CIA svaraði fyrir sig í gær og sakaði WikiLeaks um að ganga til liðs við óvini Bandaríkjanna með birtingu gagnanna og ógna þar með öryggi bandarískra ríkisborgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert