Hjón stungin til bana

AFP

Þrír sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa myrt hjón í Hallonbergen í Sundbyberg, úthverfi Stokkhólms, á þriðjudagsmorguninn. Maðurinn hafði verið ákærður fyrir kannabisræktun en hann hafði greint lögreglu frá hótunum sem honum höfðu borist þegar hann vildi hætta ræktuninni.

Lögregla fann fórnarlömbin helsærð snemma um morguninn og lést konan, sem var 40 ára, skömmu síðar. Maðurinn, sem var 39 ára, lést síðar um morguninn á sjúkrahúsi. Réttarhöldin áttu að hefjast yfir manninum daginn eftir. Maðurinn sem lést var stunginn til bana fyrir utan húsið eftir að hafa hringt í Neyðarlínuna eftir að kona hans varð fyrir árásinni. Hann náði að nafngreina að minnsta kosti einn af árásarmönnum í símtalinu. 

Þremenningarnir, sem eru á aldrinum 16-21 árs, voru handteknir á þriðjudag og voru þeir allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald fyrir héraðsdómi Solna í gær. Tveir þeirra eru einnig taldir tengjast annarri árás í hverfinu fyrr á árinu.

Fjórði maðurinn, en sá er aðeins fimmtán ára gamall, var látinn laus eftir yfirheyrslur og er hann ekki grunaður um að hafa komið að árásinni. Aftur á móti telur saksóknari, Olof Calmvik, að einhver annar maður hafi tekið þátt í árásinni.

Fjölmiðlar fengu ekki aðgang að réttarsalnum í gær og ekki eru birtir gæsluvarðhaldsúrskurðirnir. Calmvik segir í samtali við Aftonbladet að það sé gert vegna rannsóknarhagsmuna. Mikilvægt sé að hægt sé að ræða málavöxtu án þess að þeir birtist í fjölmiðlum þar sem grunur leiki á að sakborningarnir séu fleiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert