Varð deila um hvolp forsetanum að falli?

AFP

Park Geun-Hye var í gær svipt embætti forseta Suður-Kóreu, fyrst lýðræðislega kjörinna þjóðhöfðingja landsins. Rúmum fjórum áður varð hún fyrst kvenna til að gegna embættinu eftir að hafa fengið meira fylgi en nokkur annar frambjóðandi í sögu forsetakosninga í landinu.

Hneykslismál í tengslum við nána vinkonu hennar urðu til þess að fylgi forsetans hrundi og skoðanakannanir benda til þess að 77% landsmanna hafi verið hlynnt því að henni yrði vikið úr embætti.

Dóttir einræðisherra

Park er 65 ára og faðir hennar, Park Chung-Hee, var einræðisherra Suður-Kóreu eftir að her landsins tók völdin í sínar hendur árið 1961. Faðir hennar setti herlög og var gagnrýndur fyrir mannréttindabrot. Hann kom hins vegar á efnahagsumbótum sem stuðluðu að því að Suður-Kórea breyttist úr fátæku þróunarlandi í iðnveldi. Eftir að hafa lifað af nokkur morðtilræði var hann myrtur í október 1979. Yfirmaður leyniþjónustu landsins, sem hafði lengi verið náinn vinur einræðisherrans, var dæmdur til hengingar fyrir morðið.

AFP

Fimm árum áður hafði eiginkona einræðisherrans verið myrt. Park Geun-Hye tók þá við opinberu hlutverki forsetafrúar og gegndi því þar til faðir hennar var ráðinn af dögum.

Morðin á foreldrunum höfðu djúpstæð áhrif á Park Geun-Hye og urðu til þess að hún hefur lifað mjög einangruðu lífi. Á meðal þeirra fáu sem hún hefur umgengist er Choi Soon-Sil sem hefur verið náin vinkona hennar í fjóra áratugi. Vinátta þeirra varð til þess að Park var svipt embættinu.

Sakaðir um mútugreiðslur

Choi er sökuð um að hafa notfært sér vináttuna við forsetann í auðgunarskyni. Hún er m.a. sögð hafa þvingað stjórnendur stórfyrirtækja Suður-Kóreu til að greiða stofnun, sem hún stjórnaði, jafnvirði alls 7,6 milljarða króna. Park er sökuð um að hafa misnotað vald sitt sem forseti í þágu vinkonu sinnar. Hún er sögð hafa leynt því hversu áhrifamikil vinkona hennar var í stjórnsýslunni á bak við tjöldin og beitt áhrifum sínum sem forseti til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar og þingmenn rannsökuðu spillingarmálið.

Svo fór þó að efnt var til rannsóknar sem varð forsetanum að falli. Kveikjan að rannsókninni mun hafa verið deila um hvolp, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Þessi afdrifaríka deila komst í hámæli þegar suðurkóresk poppstjarna, Ko Young-Tae, svaraði spurningum þingnefndar sem rannsakaði hneykslismálið. Ko er fertugur, tuttugu árum yngri en Choi, og suðurkóreskir fjölmiðlar segja að þau hafi verið í ástarsambandi. Ko neitar því og segir að þau hafi aðeins verið „góðir vinir“.

AFP

Samband þeirra hófst skömmu eftir að Park var kjörin forseti árið 2012. Ko rak þá fyrirtæki sem framleiðir leðurhandtöskur og fatnað og kynntist Choi þegar hann var fenginn til að sýna henni nýjasta varning fyrirtækisins. Svo fór að Choi keypti 40 handtöskur og sérsaumaðar flíkur handa vinkonu sinni í forsetahöllinni.

Að sögn fjölmiðlanna urðu Ko og Choi mjög náin og hún réð hann til starfa fyrir tvö fyrirtæki sín sem eru með höfuðstöðvar í Þýskalandi. Það slettist þó upp á vinskapinn árið 2014 þegar Choi bað hann um að gæta hvolps dóttur sinnar. Hann fór með hvolpinn heim til sín og skildi hann þar eftir þegar hann fór í golf. Þegar hann sneri aftur var Choi heima hjá honum, ævareið yfir því að hann skyldi hafa skilið hvolpinn eftir. Hann sagði þingnefndinni að samband þeirra hefði verið mjög slæmt eftir þetta „hávaðarifrildi“. „Hún kom fram við mig eins og þræl, bölvaði mér mörgum sinnum.“

AFP

Ko varð svo reiður og sár yfir framkomu Choi að hann ákvað að hefna sín með því að safna upplýsingum um áhrif hennar í forsetahöllinni og koma þeim á framfæri við fjölmiðla. Þetta varð til þess að fjölmiðlarnir tóku að kanna málið. Það vatt smám saman upp á sig og varð að spillingarhneyksli sem ekki sér fyrir endann á því að enn er beðið niðurstöðu í dómsmálum og rannsóknum á hendur stjórnendum stórfyrirtækja sem eru sakaðir um mútugreiðslur til Choi.

AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert