Lögreglan sýndi hálfa söguna

Michael Brown í versluninni á myndbandinu sem hefur ekki áður …
Michael Brown í versluninni á myndbandinu sem hefur ekki áður verið birt opinberlega. Skjáskot/CNN

Áður óbirt myndband úr öryggismyndavél hefur enn á ný vakið mótmæli vegna dauða svarts manns í Ferguson í Bandaríkjunum árið 2014.

Kvikmyndagerðarmaður hefur birt myndbandsbrot sem hann segir sýna að Michael Brown var ekki að ræna verslun, líkt og lögreglan heldur fram, heldur hafi hann verið þar til að skipta á marijúana og vindlum.

Á myndbandi sem birt var stuttu eftir dauða Browns árið 2014 sást hann ýta við kaupmanninum og ganga svo út með vindla. Nokkrum mínútum síðar var hinn átján ára gamli Brown skotinn til bana af lögreglumanni.

Michael Brown sést ýta við verslunareigandanum er hann gengur út …
Michael Brown sést ýta við verslunareigandanum er hann gengur út úr versluninni. Skjáskot/Youtube

Lögreglumaðurinn Darren Wilson var ákærður fyrir drápið en síðar sýknaður. Í kjölfarið brutust út hörð mótmæli í Ferguson og víðar í Bandaríkjunum vegna lögregluofbeldis gegn svörtum Bandaríkjamönnum.

Myndbandið úr öryggismyndavélinni var birt í gær og skömmu síðar höfðu um 100 manns safnast saman fyrir utan verslunina. 

Á myndbandinu má sjá Brown fara inn í verslunina og afhenta brúnan poka. Í staðinn fær hann poka fullan af vindlum. Hann sést svo ganga að hurðinni en snúa þar við og skila pokanum með vindlunum aftur á afgreiðsluborðið.

Myndbandið er hluti af heimildarmynd Jasons Pollock, Stranger Fruit. Hann segir myndbrotið sýna að Brown hafi ekki verið að fremja vopnað rán, líkt og lögreglan heldur fram, er hann kom aftur í búðina síðar þennan sama dag. Á því myndbroti, sem birt var skömmu eftir dauða hans, sést hann ýta við kaupmanninum og fara út úr versluninni með vindlana. 

Í frétt BBC segir að lögreglan hafi birt það myndband á sínum tíma til að rökstyðja af hverju Brown var grunaður um rán og síðar skotinn af lögreglunni.

Pollock heldur því fram í mynd sinni að Brown hafi skipt á marijúana og vindlum en ákveðið að geyma þá í búðinni um stund.

„Þeir eyðilögðu mannorð Michaels með þessu myndbandi og ákváðu að sýna okkur ekki hvað raunverulega gerðist,“ segir Pollock í samtali við New York Times.

Lögmaður verslunareigandans segist ætla að birta enn eitt myndbandið til að sanna að Brown hafi verið að ræna verslunina.

Heimildarmyndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíð á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert