Fjölskyldur fá lífstíðardóm

Sally Antonio er ekki hennar rétta nafn enda óttast hún …
Sally Antonio er ekki hennar rétta nafn enda óttast hún hefndaraðgerðir af hálfu lögreglu. AFP

Stríð stjórnvalda á Filippseyjum gegn eiturlyfjum hefur kostað sjö þúsund manns lífið á undanförnum mánuðum. En á sama tíma hafa fjölskyldur þeirra sem eru drepnir fengið sinn dóm - jafnvel lífstíðardóm fátæktar. 

Hundruð fanga í fangelsum á Filippseyjum búa við skelfilegar aðstæður.
Hundruð fanga í fangelsum á Filippseyjum búa við skelfilegar aðstæður. AFP

Sally Antonio er úrvinda enda hefur hún neyðst til þess að sinna þremur störfum eftir að lögreglan á Filippseyjum skaut eiginmann hennar og son til bana í stríði sínu gegn eiturlyfjum. 

Talið er að aðgerðir forseta Filippseyja, Rodrigo Duterte, hafi kostað sjö þúsund manns lífið og hefur þetta haft gríðarleg áhrif á fjölskyldur þeirra og í raun hafa ekkjur þeirra fengið lífstíðardóm. Þetta er í mörgum tilvikum ekki stríð gegn eiturlyfjum heldur stríð gegn fátækum.

AFP

Antonio, sem er 43 ára gömul, missti 19 ára gamlan son - en hann var helsta fyrirvinna heimilisins - og eiginmann, sem var atvinnulaus, þegar lögregla leitaði að eiturlyfjum á heimili þeirra fyrir sex mánuðum og skaut feðgana til bana.

„Þegar þeir drápu eiginmann minn og son þá drápu þeir mig líka,“ segir Antonio í viðtali við AFP fréttastofuna. Hún reynir að framfleyta fjölskyldunni með því að taka að sér sífellt meiri vinnu enda á hún fimm börn á lífi og barnabarn.

AFP

Að sögn Antonio nær hún stundum ekki nema tveggja tíma svefni því hún þarf að sjá fyrir sér og sínum. Hún starfar í þvottahúsi, sinnir útréttingum fyrir fólk í hverfinu og starfar við eftirlit á vegum hins opinbera. „Stundum er ég svo úrvinda og kvalirnar í höndunum svo miklar að ég kemst ekki í vinnu í einn eða tvo daga,“ segir Antonio grátandi. „Þá þarf ég að fá lánaða peninga hjá nágrönnum og við þurfum að fara sparlega með mat.“

AFP

Antonio segir að 18 ára gömul dóttir hennar sem var byrjuð í sálfræði í háskóla hafi þurft að hætta námi svo hún gæti sinnt heimilistörfum og gætt systkina sinna en faðir hennar sá um það starf áður. En helsta áhyggjuefni Antonio er að eiga ekki pening fyrir lyfjum 11 ára gamals sonar sem er hjartveikur. „Ég er svo reið. Af hverju þurftu þeir að drepa eiginmann minn og son og fórna fjölskyldum eins og okkur.“

AFP

Antonio vissi vel að eiginmaður hennar var fíkill og það hafi ekki verið neitt launungarmál. Hann hafi hins vegar ekki verið fíkniefnasali. Sonur hennar hafi hins vegar aldrei komið nálægt eiturlyfjum. Hann hafi sennilega verið skotinn til bana þar sem hann bað lögregluna um að þyrma lífi föður hans þegar húsleit var gerð á heimilinu.

AFP

Samkvæmt skýrslu lögreglu neyddist lögregla til þess að skjóta mennina eftir að þeir skutu á lögreglu. Um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Antonio segir aftur á móti að þeir hafi ekki sýnt mótspyrnu þegar lögregla leitaði á heimilinu.

Á síðustu átta mánuðum hefur lögreglan, svo vitað er, drepið yfir 2.500 manns í sjálfsvörn þegar hún hefur verið í aðgerðum tengdum stríðinu gegn eiturlyfjum. 

Mannréttindasamtök saka lögreglu um kerfisbundnar aftökur og þær séu fóðraðar undir yfirskyni sjálfsvarnar.  Amnesty International segir að ekki sé útilokað að lögreglan hafi framið glæpi gegn mannkyninu.

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte.
Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte. AFP

Duterte, sem er 71 árs, var kjörinn forseti í fyrra og hét hann því að hefja stríð gegn eiturlyfjum en eiturlyf hafa kostað tugi þúsunda landsmanna lífið. Duterte segir að hann myndi glaður slátra þremur milljónum eiturlyfjafíkla en tekur fram að hann hafi ekki fyrirskipað lögreglu að fremja lögbrot.

Duterte hefur svarað gagnrýni um að flest fórnarlömbin séu fátækt fólk að það skipti hann engu hvort um helsta eiturlyfjasala landsins sé að ræða eða þann fátækasta því þeir séu allir hluti af samsæri um að eyðileggja og eyða lífi.

Kaþólska kirkjan hefur stutt dyggilega við bakið á ættingjum þeirra sem eru drepnir í stríðinu gegn eiturlyfjum.

Dennis Febre, sem leiðir starfið í kirkju í Manila, segir að drápin skapi fleiri vandamál en þau leysi.

Þetta valdi því að margir þeirra sem eftir standa neyðast til þess að selja eiturlyf eða stunda vændi til þess að framfleyta fjölskyldum sínum.

AFP

Rose Maninggo, 25 ára, hefur fengið starf hjá kirkjunni við að veita neyðaraðstoð eftir að eiginmaður hennar, grænmetissali, var drepinn í aðgerðum lögreglu í janúar. Hún hefur ekki hugmynd um hvernig hún eigi að framfleyta fimm ára gömlu barni þeirra og öðru nýfæddu þegar starfi hennar lýkur eftir tvo mánuði. Andleg líðan hennar er skelfileg. „Ég er ekki örugg. Mig dreymir um manninn minn liggjandi í blóðpolli biðja mig um að ná fram réttlæti,“ segir Maninggo, en bæði hún og Antonio báðu um að þær kæmu fram undir fölsku nafni af ótta við hefnd lögreglu. „Ég óttast um börnin mín og ég vil að þau séu örugg,“ segir Maninggo.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert